141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:39]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá yfirlýsingu um að ekki eigi að vera samkeppni heldur eigi þetta að vera sameiginlegur ríkisrekstur og ábyrgðin á ríkinu hvað varðar heilbrigðiskerfið. Þannig er það í lagaumhverfinu og þannig hefur meiri hluti þjóðarinnar viljað hafa það. Þannig viljum við hafa það áfram.

Það að kostnaðargreina og fylgjast með þjónustu o.s.frv. hefur ekkert með þetta frumvarp að gera svo að það sé sagt. Að láta það líta út þannig að stefnumótunin færist til sjúkratrygginga og þar verði þarfagreiningin og allt slíkt, það kemur ekkert þaðan. Það kemur eftir sem áður úr ráðuneytinu og frá þeim stefnum sem eru. Þar hefur verið unnið gríðarlega mikið starf, ekki með látum og ekki verið að breyta eða kúvenda, til þess að reyna að horfa til framtíðar á erfiðum tímum, niðurskurðartímum sem við höfum þurft að ganga í gegnum. Að endurskipuleggja miðað við þjónustu á landinu í heild, endurskipuleggja hvað er í þjónustunni á Landspítalanum, það gerum við ekki endilega með því að fara í samninga á milli sjúkratrygginga og Landspítala um einstök verk þegar aðeins einn aðila er við að semja. Við munum, eins og kemur hér fram, fylgjast áfram með kostnaði og vinna þetta áfram.

Það sem ég var að bregðast alvarlega við, og var þess vegna grafalvarlegur á svipinn, er að menn tengja þetta við þjónustuna við sjúklinga. Það fannst mér ómaklegt og að láta að því liggja að hér sé verið að rýra eitthvað þjónustu finnst mér ekki rétt.