141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka það vegna þess að það skiptir máli og ég hélt, virðulegi forseti, að samstaða væri innan þingsins um að bæta góða heilbrigðisþjónustu. Það er alltaf nauðsynlegt en þó sérstaklega á tímum eins og þeim þegar við höfum minni fjárráð en við höfum haft áður. Í því felast ákveðin vandamál en líka tækifæri.

Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum þegar ég sá þetta frumvarp koma fram. Það eru engar afsakanir gildar þegar menn eru að fresta þessu einu sinni enn. Engar. Það hefur margoft verið hrakið, þetta snýst ekki um að eyða meiri peningum. Þetta snýst um að við færum á einn stað þá sem þekkja best til þessara mála. Er það ekki skynsamlegt, virðulegi forseti? Að sjálfsögðu er það skynsamlegt. Þess vegna fór ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar þessa leið, ríkisstjórn sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar kölluðu nú alltaf ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins þangað til það breyttist haustið 2008 og sá flokkur hvarf úr þeirri ríkisstjórn, í það minnsta í sögubókum Samfylkingarinnar.

Við verðum að setja markið hátt í heilbrigðisþjónustunni. Við eigum að geta náð þverpólitískri samstöðu um að vinna faglega að þeim málaflokki. Það getur vel verið að við náum ekki saman um einhverja hluti, það er allt í lagi, en ég held að við séum sammála um svona 90–95%. Ég hef ekki hitt neina þá aðila, hvorki innan heilbrigðisþjónustunnar né í stjórnmálum, sem hafa virkilega kynnt sér málin og ekki verið sammála því að við skilgreinum hvað hver á að gera. Og er þá sama hvort þeir vilja stórt hlutverk einkareksturs eða ríkisreksturs, að rekstrarformið verði fjölbreytt eða að allt verði ríkisrekið sem er ákveðin öfgaskoðun sem ég held að einn stjórnmálaflokkur hafi á stefnuskrá sinni. Það gerist ekki af sjálfu sér. Það leikur enginn vafi á því að ef við gerum það náum við betri árangri.

Ég nefndi hérna augnsteinaaðgerðirnar. Lengstu biðlistarnir voru á sínum tíma í augnsteinaaðgerðir. Eftir að vera búin að bera saman hina ýmsu þjónustuaðila náðum við samningum við nokkra, bæði opinbera og einkaaðila, sem gerði það að verkum að við gátum gert þetta fyrir fólkið með hagkvæmari hætti. Þetta voru ódýrari aðgerðir.

Það sem er jákvætt í því líka, virðulegi forseti, er að þar komu líka einkaaðilar, fyrirgefið að ég segi frá því, sem eru að þjónusta ekki bara Íslendinga heldur líka útlendinga. Í hverri viku koma hingað Norðurlandabúar í augnaðgerðir sem gerir það að verkum að við getum haft fleira íslenskt heilbrigðisstarfsfólk að störfum í stað þess að það fari til útlanda og veitir okkur ýmsar aðrar tekjur. Þar er eftir því sem ég best veit, virðulegi forseti, stærsti kúnnahópurinn og vinir okkar í raun, Færeyingar. Ef rétt er á málum haldið eigum við að geta nýtt okkur stöðuna, vegna þess að við eigum fyrst og fremst hæft starfsfólk en líka aðstöðu sem getur nýst fleirum en bara Íslendingum.

Það eru mikil sóknarfæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Ég bið hæstv. ráðherra að hugsa málið, hvort við getum ekki náð samstöðu um það að breyta þessu frumvarpi því um það verður ekki friður eins og er núna.