141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[17:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum efnum er ekki skýring á þeim töfum sem orðið hafa á því máli sem við ræðum. Þvert á móti, þetta módel gengur einfaldlega ekki betur upp en svo. Það er óþarfi að vera undrandi á stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum efnum eða stefnufestu minni og annarra þingmanna okkar.

Ég nefndi áðan að þessi hugmynd hefði verið sótt til Svíþjóðar einna helst þar sem hún hefur þegar, sérstaklega hvað varðar heilsugæsluna, leitt til sífellt verri þjónustu þar sem hennar er mest þörf. Þetta þekkja menn mjög vel. Sænska módelið er því miður ekki lengur það fyrirmyndarmódel sem það var áður vegna þess að hægri menn hafa haldið þar of lengi um stjórnartauma og eru komnir býsna langt með að eyðileggja heilbrigðisþjónustuna. Ég gæti rökstutt þetta ef ég fengi til þess lengri tíma.

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði af hverju ekki væri samið og hvort ég teldi að það væri út af Sjúkratryggingum Íslands. Nei, ég kenni þeim ekki um en mér er ljóst, eins og hv. þingmanni hlýtur líka að vera, að Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki dugað til að ná samningum á þeim vettvangi og var það er þó eina hlutverkið sem þeim var ætlað í þeim efnum. Ég var að vekja athygli á því.

Varðandi tannlæknana er rétt að það er enginn hvati til þátttöku þeirra í samningum við ríkið meðan ríkið tekur ekki þátt í neinum niðurgreiðslum á tannlæknaþjónustu fyrir þá sem mest nota hana (Forseti hringir.) sem eru á bilinu 18 ára til 67 ára.