141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[17:16]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég náði ekki að svara í fyrra andsvarinu um samningsleysið og áhyggjur mínar, sem ég deili með hv. þingmanni, varðandi það að sérgreinalæknar eru sumir hverjir farnir að setja aukagreiðslur á sjúklinga, sem ekki eru innan þeirra hámarka eða þátttöku sem við miðum við í endurgreiðslu til sjúklinga, og það er alls kostar óásættanlegt. Í því samhengi vil ég vekja athygli á að í skýrslu sem starfshópur á vegum velferðarráðuneytisins og mín, eftir vinnu sem Magnús Pétursson leiddi, kom fram mjög hörð gagnrýni á og efasemdir um að löglegt væri að greiða fyrir þjónustu sem ekki væri samningur um. Við þurfum því að fylgja því mjög eftir að þarna náist samningar.

Varðandi tilvísanakerfið og þjónustustýringu er það alveg rétt hjá hv. þingmanni, það er svona ákveðinn orðaleikur. Þegar maður talar um tilvísanakerfið er það kannski skilningurinn hjá manni sjálfum að einhver eigi að vísa til annars. Þjónustustýringin getur verið með öðrum hætti, að menn þurfi stundum að fara í gegnum ákveðna tilvísun en einnig sé hægt að stýra með verði eða aðgengi eða einhverju slíku. Það hefur verið skoðað samhliða hvað er skynsamlegt miðað við að við höfum gríðarlegan mannauð í sérgreinalæknunum, en það var forsenda þess að ná samningum. Við þurfum líka að nýta okkur heilsugæsluna og efla hana. Ég held að enginn ágreiningur sé um það. Það hefur ekki tekist fyllilega þannig að við eigum þar mjög mikið verk óunnið.

Ég þakka umræðuna. Mér finnst gagnlegt að fá tækifæri hér, þó í kringum þetta frumvarp sé, til að fá smátíma til að ræða heilbrigðismálin. Heilbrigðisáætlunin kemur vonandi fljótlega inn í þingið. Þá verður vonandi umræða um heilbrigðismálin, langtímamarkmiðin og hvað við sjáum. Við erum líka komin með innanhússkýrslu sem er framhald af svokallaðri Boston Consulting vinnu, sem var starfshópur þar sem allir þeir hópar komu og skiluðu sinni vinnu. Það verður mikið fóður í umræðu líka þar sem þessi umræða þarf að eiga sér stað. (Forseti hringir.) Við þurfum að halda áfram að reyna að ná þjóðarsátt um það hvernig við byggjum upp sem best heilbrigðiskerfi.