141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er þetta umdeilda mál komið til 3. umr. og væntanlega til afgreiðslu innan ekki mjög langs tíma. Ég hef lesið hér nefndarálit með þeirri breytingartillögu sem hv. þingmaður gerði grein fyrir. Þar sé ég að fyrir nefndina var kallað margt ágætisfólks frá ýmsum stofnunum og ráðuneytum. Ég sakna þess hins vegar að sjá ekki á þeim lista ýmsa þá sem beðið var sérstaklega um að kallaðir yrðu fyrir í meðförum nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Mér er kunnugt um að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgöngunefnd óskuðu eftir því að fá á sinn fund fyrrverandi flugmálastjóra, sem hefur gríðarlega mikla reynslu á þessum sviðum, þekkir meðal annars til þess hvernig til hefur tekist um sambærilegar breytingar í öðrum löndum, og fulltrúa Icelandair, okkar stóra flugfélags, sem ég veit að höfðu ýmislegt fram að færa varðandi þetta mál og athugasemdir við það fyrirkomulag sem nú er ætlunin að lögleiða.

Ég vil því spyrja hv. þingmann sem er talsmaður og framsögumaður þessa máls, hv. þm. Róbert Marshall, hvernig því víki við, hvers vegna gerist það í nefndinni að ekki er orðið við svo sjálfsagðri ósk. Við vitum að stundum þarf að hraða málum af ýmsum ástæðum. Það á ekki við um þetta mál. Hér er verið að gera ráð fyrir því að gildistakan verði ekki fyrr en um eða eftir mitt næsta ár, þá er auðvitað nægur tími til að fara yfir þetta mál á einum fundi, t.d. með þeim aðilum sem ég nefndi hér og mögulega einhverjum fleirum sem mér er ekki kunnugt um. Ég hefði talið að fyrir málið sjálft hefði það verið mjög til bóta að fá þessar upplýsingar fram, t.d. afstöðu Icelandair til þessa máls. Þetta mál varðar ekki síst það stóra flugfélag, þann mikilvæga vinnustað, þá mikilvægu gjaldeyrisskapandi starfsemi sem þar fer fram. Það væri líka mjög mikilvægt fyrir okkur að vita hver reynsla annarra þjóða er. Er það sammerkt með öllum þjóðum að vilja fara þessa leið? Mér er ekki kunnugt um það eða mér er öllu heldur (Forseti hringir.) kunnugt um að miklar efasemdir eru um þessar leiðir í mörgum öðrum löndum sem hafa verið að reyna þetta fyrirkomulag.