141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Róbert Marshall) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmanni er kunnugt er þetta mál í sjálfu sér ekki nýtt af nálinni og hefur verið lengi til umfjöllunar. Sá sem hér stendur kom fyrst að því sem aðstoðarmaður samgönguráðherra árið 2008 þegar út kom stjórnsýsluúttekt frá Ríkisendurskoðun sem mælti með þeirri aðferðafræði sem síðan hefur verið fylgt. Málið hefur verið til umfjöllunar í fjögur ár, í opinberri umræðu, bæði innan ráðuneyta, milli starfsfólks, í starfshópum starfsfólksins. Það hefur verið afgreitt á öðrum þingum úr umhverfis- og samgöngunefnd, að minnsta kosti tvisvar áður, held ég, án þess það komi til afgreiðslu. Þannig að þeir umsagnaraðilar sem hv. þingmaður vísar til hafa komið fyrir nefndina og lýst sjónarmiðum sínum. Það er ekkert nýtt í málinu frá því þær umsagnir komu fram, að minnsta kosti ekki hvað varðar Flugmálastjórn og forstjóra Flugmálastjórnar. Ég man ekki nákvæmlega hvernig umsögn þess ágæta fyrirtækis Icelandair var háttað eða hvort hún barst, en fyrirtækinu hefur að minnsta kosti verið gefinn góður tími til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, vegna þess að málið hefur verið til umfjöllunar, eins og ég segi, á þessu kjörtímabili, allt frá árinu 2009.