141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Róbert Marshall) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði hér áðan og geta þess jafnframt að það var að ósk þingmanna Sjálfstæðisflokksins að málið var tekið til umræðu milli 2. og 3. umr. Sú ósk kom fram hér þegar mælt var fyrir nefndaráliti og orðið við henni strax. Það kom hins vegar alveg skýrt fram að það yrði til þess að fjalla um tímasetningar um gildistökuákvæðin og óskir um aðra gesti komu ekki fyrr en eftir að þau orð féllu.

Ég vil ítreka það sem ég sagði hér áðan. Það er ekkert óðagot í þessu máli. Ekki er hægt að halda því fram að verið sé að ana fram án þess að hlusta á sjónarmið, vegna þess að fyrir liggja stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá árinu 2008, skýrsla starfshóps frá árinu 2009 og síðan ítarleg umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar allt frá árinu 2009. Ég held því að kominn sé sá tími þar sem þingið verður að taka afstöðu til málsins. Ekki er hægt að bjóða starfsfólki ríkisins og þessara stofnana upp á það að í sífellu sé verið að draga umfjöllun hér í þinginu.

Þau sjónarmið sem hv. þingmaður óskaði eftir hafa komið fram í málinu. Þá er bara eðlilegt að menn nýti það tæki sem þessi þingsalur er og sú afgreiðsla sem hér fer fram felur í sér, að greidd séu atkvæði um framhald málsins.