141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

nauðasamningar bankanna.

[10:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra upplýsti rétt áðan að fjármálaráðuneytið fylgdist mjög vel með samningum við kröfuhafa gömlu bankanna. Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hefur Seðlabankinn umboð til að semja við kröfuhafa gömlu bankanna og á bankinn í slíkum viðræðum við kröfuhafana nú?

Hæstv. forsætisráðherra sagði reyndar að Seðlabankinn biði eftir því að nauðasamningar kláruðust. Að Seðlabankinn væri í einhvers konar biðstöðu, biði eftir því að nauðasamningar kláruðust og mundi ekki fyrr setja reglur um útstreymi gjaldeyris.

En á Seðlabankinn í viðræðum við kröfuhafa bankanna? Hefur hann umboð til þess og hefur hæstv. fjármálaráðherra eða fulltrúar hæstv. ráðherra komið að þeim viðræðum?

Jafnframt spyr ég hvort gera megi ráð fyrir því að viðræðunum ljúki innan fyrirsjáanlegs tíma, til að mynda fyrir 1. maí árið 2013.