141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

nauðasamningar bankanna.

[10:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ekki er hægt að skilja hæstv. fjármálaráðherra öðruvísi en að Seðlabankinn, og þar með talinn seðlabankastjóri, hafi ekki umboð til að standa í viðræðum við kröfuhafa gömlu bankanna. Ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef það er ekki réttur skilningur á því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra áðan. Seðlabankastjóri hefur ekki umboð til viðræðna við kröfuhafa bankanna.

Jafnframt bið ég hæstv. ráðherra um að upplýsa þingið um hverjir eiga í viðræðum við kröfuhafa bankanna og hvernig þær viðræður standa. Er ekki hæstv. ráðherra sammála mér um að þingið verði að koma að þeim viðræðum, þ.e. að fá að fylgjast með þeim áður en þær eru leiddar til lykta? Þó að ríkisstjórnin hafi tröllatrú á seðlabankastjóra hefur reynslan því miður sýnt, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á áðan, að mat Seðlabankans á einmitt þessum málum hefur ekki reynst rétt. Þar hefur skeikað mörg hundruð milljörðum kr. (Forseti hringir.) Þar af leiðandi er það skylda hæstv. ráðherra og þingsins að fylgjast með gangi þessara mála.