141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

nauðasamningar bankanna.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að Seðlabankinn hefði fullt umboð til að tryggja fjármálastöðugleika í landinu og einnig greiðslujöfnuð. (SDG: En ekki til samninga?) Seðlabankinn kemur mjög mikið að þessum málum í gegnum þá skyldu sína. Þar af leiðandi geri ég ráð fyrir því að Seðlabankinn sé í sambandi við þá sem sjá um þessi mál varðandi með hvaða hætti þessir þættir verði tryggðir í tengslum við nauðasamningana þó að hann komi ekki að samningunum sjálfum samkvæmt lögum.

Virðulegi forseti. Ég tel að ferlið allt sé í ágætisfarvegi. Vissulega þurfum við að fylgjast mjög vel með þessum málum og það gerum við í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Við höfum auðvitað miklar áhyggjur af því eins og hv. þingmaður og ég held að það væri ekki úr vegi að við tækjum umræðu um málin í þinginu á næstunni þannig að þingið geti fengið greinargóðar upplýsingar um stöðuna. Ég býð mig fram ef einhver vill eiga við mig sérstaka umræðu um málið.