141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

stefna ASÍ vegna skattlagningar lífeyrisréttinda.

[10:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær ákvað Alþýðusamband Íslands að stefna íslenskum stjórnvöldum vegna skatts á lífeyrissjóðina. Þeir benda á að umrædd skattlagning lendi einungis á lífeyrisréttindum fólks á almennum markaði og brjóti gróflega, eins og segir í ályktuninni, gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Þeir færa fyrir þessu rök í sérstakri greinargerð, benda á að fyrir ári hafi ríkisstjórnin lagt fram frumvarp þar sem lagt var til að lagðar yrðu verulegar álögur á lífeyrissjóðina. Hæstv. forsætisráðherra og þáverandi hæstv. fjármálaráðherra hafði þá sent forseta Alþýðusambandsins og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins bréf þess efnis að ríkisstjórnin mundi sjá til þess með beinum framlögum að ekki kæmi til fyrrgreindrar skerðingar.

Síðan segir í greinargerðinni:

„Ekkert hefur verið gert í því að koma í veg fyrir neikvæð áhrif umrædds skatts.“

Það er enn fremur rifjað upp að við endurskoðun kjarasamninganna í janúar á þessu ári lögðu oddvitar ríkisstjórnarinnar fram minnisblað um með hvaða hætti til stæði að afnema þessi lög með sérstöku samkomulagi um aðkomu lífeyrissjóðanna að áætlun Seðlabanka Íslands um útboð á aflandskrónum.

Enn er sagt, með leyfi virðulegs forseta:

„Minnisblaðið hafði mikil áhrif á að ekki kom til uppsagna kjarasamninga.“

Í febrúar síðastliðinn var síðan undirritað samkomulag milli lífeyrissjóðanna og þáverandi fjármálaráðherra um þátttöku lífeyrissjóðanna í þessum útboðum.

Enn segir í greinargerð Alþýðusambandsins, með leyfi forseta:

„Nú hefur fjármálaráðherra með stuðningi ríkisstjórnarinnar ákveðið að virða ekki þennan samning.“

Með örðum orðum, eins og segir í ályktun Alþýðusambands Íslands, er ekki bara búið að svíkja þessi loforð einu sinni, ekki bara tvisvar, heldur þrisvar.

Um þessi mál segir forseti Alþýðusambands Íslands í útvarpsfréttum í gær, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég verð að viðurkenna að þetta er nú farið að jaðra við eitthvert heimsmet.“

Virðulegi forseti. Við vitum að fyrir löngu er hæstv. ríkisstjórn orðin Íslandsmethafi í því að svíkja gefin loforð og fyrirheit. Það Íslandsmet stendur og engar líkur á því að því verði nokkurn tíma hnekkt. En nú liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn er ekki bara Íslandsmethafi í því að svíkja loforð og gefin fyrirheit, heldur handhafi heimsmeistaratitilsins. Hún hampar þeim heimsmeistaratitli í því að svíkja gefin loforð og fyrirheit að mati forseta Alþýðusambands Íslands.

Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Ætlar hæstv. ríkisstjórn að verja þennan nýfengna en vafasama titil sinn (Forseti hringir.) eða ætlar hún til tilbreytingar að standa einu sinni við gefin loforð?