141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng.

[10:53]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram óundirbúna fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem snýr að Vaðlaheiðargöngum og framkvæmdum þar. Til að rifja upp forsögu málsins, sem er orðin tíu ára gömul frá upphafi, samþykkti Alþingi 13. júní sl. heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði með miklum meiri hluta atkvæða, eða 31 atkvæði gegn 18. Síðan hefur margt gerst en þó ekki nógu mikið.

Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra er þessi: Hvers vegna dregst svo að skrifa undir verksamning við lægstbjóðanda að verkinu þar sem tilboð voru opnuð 11. október 2011 eða fyrir um 13 mánuðum?

Nú veit ég, virðulegi forseti, að margt hefur gengið á hvað þetta varðar. Við þekkjum málþóf andstæðinga hér á Alþingi sem virðast ekki geta unað því að Alþingi hefur tekið ákvörðun. En í kerfinu virðist mér það vera þannig að allir séu að bíða eftir öllum hinum. Mér er kunnugt um að í innanríkisráðuneytinu lágu drög að samkomulagi eða yfirlýsingu frá innanríkisráðuneytinu frá 1. október sl. hvað það varðar.

Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra eru einfaldlega þessar tvær:

Hvenær verður skrifað undir verksamning við lægstbjóðanda og verkið byrjað? Eða, svo við setjum þetta yfir í samhengi sem er oft á hátíðarstund þegar svona verk fara í gang: Hvenær hyggst hæstv. fjármálaráðherra koma norður og sprengja fyrstu sprengjuna?