141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng.

[10:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu. Varðandi seinni spurninguna er ég ekki viss um að ég nái því fyrir kosningar, þ.e. á meðan ég sit í þessu embætti, en við skulum sjá hvað verður.

Varðandi verkefnið í heild er staðan þannig að lánasamningurinn er til skoðunar hjá Ríkisábyrgðasjóði og við eigum von á að fá niðurstöðu úr því í næstu viku. Verksamningurinn er í lokayfirferð í innanríkisráðuneytinu og mér er sagt að við munum líka fá hann í næstu viku. Ég á því von á að í næstu viku getum við séð umgjörðina tilbúna þannig að verkið fari að fara í gang. Ég vona svo sannarlega að það gangi eftir af því að ég veit að ég og hv. þingmaður erum bæði miklir áhugamenn um að atvinnuuppbygging fyrir norðan gangi vel og gangi eftir og þetta er stór liður í því. Hv. þingmaður og við öll förum vonandi að sjá verkefnið komast á fullt skrið í framhaldi af því að þessir tveir lykilþættir liggja fyrir í næstu viku.

Þá er líka eftir einn þáttur og það er fjármögnun þeirra sem koma að verkinu með ríkinu, það er líka eftir að klára staðfestingu á þeirri fjármögnun, en ég held að það sé bara tæknilegt útfærsluatriði.