141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng.

[10:56]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þetta svar og vonandi gengur það eftir. Hér kemur fram að enn er um að ræða tvo samninga, annars vegar samninginn sem liggur í innanríkisráðuneytinu, lokahnykkinn á verksamningnum, og hins vegar lánasamninginn sem snýr að Lánasýslu ríkisins.

Virðulegi forseti. Ekki er hægt að una við það að kerfið, hvort sem það heitir í ráðuneytum eða Ríkisábyrgðasjóði eða Seðlabanka, taki sér þennan langa tíma sem þetta hefur tekið. Á meðan bíða verktakarnir eftir því að hefja verkið. Starfsmenn bíða eftir að fá vinnu og eftir því að fara að vinna verkið. Þjónustuaðilar bíða eftir að fara að selja þjónustu sína o.s.frv., og íbúar svæðisins bíða.

Virðulegi forseti. Þessi framkvæmd er góð eins og oft hefur komið fram. Hún mun skapa og auka umferðaröryggi en hún var líka sett fram í stöðugleikasáttmála til að auka atvinnu. Þetta er mannaflsfrek framkvæmd. Ég heiti á hæstv. fjármálaráðherra að fylgja þessu máli vel eftir við þá sem eru að vinna þetta verkefni, opinbera aðila, sem eru öruggir um að fá laun sín greidd um næstu mánaðamót — en verktakar og starfsmenn bíða eftir því að hefja þetta verk og fá vinnu við það.