141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

hagvöxtur og hækkun stýrivaxta.

[11:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja varðandi stýrivaxtahækkunina í gær að hún olli mér verulegum vonbrigðum. Seðlabankinn ber fyrir sig slaka í hagkerfinu og bendir á lægra gengi og verðbólgu. Ég er mjög ósátt við að gripið skuli hafa verið til stýrivaxtahækkunar.

Ég tel nauðsynlegt að hv. þingmaður horfi til þess að þó að hagvöxturinn hafi dregist aðeins saman er hann þó með því mesta sem gerist í Evrópu. Hagvöxtur upp á 2,5% um þessar mundir, miðað við það sem gerist og gengur annars staðar, er alls ekki slæmur og það er alveg ljóst að þó að við hefðum gjarnan viljað sjá fjárfestinguna aukast meira fer atvinnuvegafjárfestingin vaxandi.

Hv. þingmaður ætti líka að horfa til þeirrar innspýtingar sem ríkisstjórnin gefur með þeirri fjárfestingaráætlun sem hún hefur sett fram sem hafa mun veruleg áhrif hér til að auka hagvöxtinn og bæta stöðuna á vinnumarkaðinum.

Varðandi þá stöðu sem hv. þingmaður segir að sé á vinnumarkaðinum er alls ekki rétt að bera saman þær tölur sem koma frá Hagstofunni og tölurnar sem koma frá Vinnumálastofnun, sem fundnar eru út með allt öðrum hætti. Hagstofan reiknar tölur sínar út með viðtalskönnunum og í þeim könnunum eru miklar sveiflur, á meðan Vinnumálastofnun byggir tölur sínar á skráðu atvinnuleysi. Allt tal um að staðan á vinnumarkaði sé slæm er út í bláinn þegar horft er á tölur Vinnumálastofnunar og allar aðrar vísbendingar benda í sömu átt. (Forseti hringir.) Seðlabankinn gengur meira að segja út frá því og segir að atvinnuleysið og staðan á atvinnumarkaðinum sé betri en hann spáði síðastliðið haust.