141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

hagvöxtur og hækkun stýrivaxta.

[11:04]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er fróðlegt að hæstv. forsætisráðherra telji að það sé út í bláinn sem Vinnumálastofnun lagði fram í gær. Hún bendir á tölur frá Hagstofunni, að það sé miklu meira að marka þær. En nú vill svo til að grein Vinnumálastofnunar var studd með tölum frá Hagstofunni þannig að eitthvað gengur ekki upp hér.

Hvað varðar fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, þar sem setja á mikla peninga í skapandi greinar, sem ég er mjög fylgjandi, verðum við að hafa eitt í huga; ef við tökum sem dæmi að við áætlum að fjölga ljóðskáldum í landinu um 50 — ég er mikill ljóðaunnandi og væri því mjög fylgjandi — er það ómögulegt ef maður hugsar til þess hvernig áætlunin er fjármögnuð, með veiðigjöldum, að hugsa til þess að til að fjölga skáldunum hafi þurft að segja upp 50 sjómönnum hjá útgerðarfélaginu Ögurvík. (Forseti hringir.) Vantar ekki eitthvert samhengi þar? Það þýðir ekki að taka frá einum og láta annan hafa. Þannig verða störfin ekki til, þannig verður bara tilfærsla í þjóðfélaginu.