141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

skipulögð glæpastarfsemi og staða lögreglunnar.

[11:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hún er mikil ábyrgð þeirra þingmanna sem segja hér og fullyrða að það þurfi ekki frekari forvirkar heimildir þegar vitað er að við stöndum öðrum Norðurlandaþjóðum langt að baki í þeim efnum. Eru þessir hv. þingmenn tilbúnir að axla þá ábyrgð sem fylgir þessum orðum? (Gripið fram í: Já.) Svarið er já. (ÞSa: Já.) Ég fullyrði að þessir þingmenn munu benda annað og segja á sama tíma: Ekki benda á mig! — ef eitthvað kemur upp á sem má rekja til þess að við höfum ekki haft þær heimildir sem um er að ræða. Ráðherrann svaraði líka játandi, hann taldi lögregluna ráða við verkefni sín en það mætti gera betur. Þá er spurningin: Hvað ætlar hann að gera? Stendur til að fjölga í lögreglunni? Stendur til að auka búnað? Stendur til að auka fjármagn í fjárlögum?

Við skoðum forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í nýrri fjárfestingaráætlun. Maður veltir því fyrir sér hvort hæstv. ráðherra sé sáttur við þessa fjárfestingaráætlun þar sem verið er að setja milljarða kr. í skapandi greinar, fjárfestingar, netríkið Ísland, grænkun fyrirtækja og ég get lengi talið upp. Er þetta rétt forgangsröðun á sama tíma og við getum ekki keypt tæki inn á spítalana og við getum ekki staðið myndarlega að löggæslu í landinu? Verðum við ekki að huga að þessum grunnþörfum áður en við förum í svona dellufjárfestingaráætlanir sem eru byggðar á óskum til að uppfylla þarfir einhverra sem eru eins og munaðarvara á erfiðum tímum?

Ég held að það sé mikilvægt við fjárlagagerð fyrir næsta ár að þingmenn íhugi ábyrgðina sem felst í því hvernig við forgangsröðum fjármagninu sem við höfum. Við horfum til grunnstoða samfélagsins sem liggja meðal annars í öryggi og heilbrigðisþjónustu. Það er algert lágmark að til þeirra sé horft. Það viðurkenna allir að við stöndum okkur ekki nægilega vel á þeim vettvangi. Erum við þá ekki öll sammála um að hlúa fyrst og fremst að þeim? (Forseti hringir.) Lögð var fram beiðni frá allsherjar- og menntamálanefnd um að skipuð yrði nefnd um löggæsluáætlun í vor. Mér skilst að sú nefnd sé ekki farin að hittast enn þá, búið sé að skipa hana (Forseti hringir.) en hún hafi ekki komið saman. Segir það ekki allt um áherslur hæstv. ráðherra á þessu máli að hálfu ári seinna skuli þessi nefnd ekki vera komin saman? Hún hefði þurft að vera að ljúka störfum núna þannig að það lægi fyrir við fjárlagagerðina fyrir næsta ár (Forseti hringir.) hvað þingið þarf að ákveða.