141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leiðrétta ýmsar rangfærslur hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni. Í fyrsta lagi situr Ísland ekki á botninum ásamt Ungverjalandi hvað þetta varðar en við gerðum það. Það gerðum við en það var ekki eftir hrun, það var fyrir hrun. (HöskÞ: Nei.) Þannig hefur það verið og það er hægt að skoða á hinu alþekkta interneti, þar er hægt að kalla eftir þeim upplýsingum og við höfum aldeilis færst upp listann eins og kom meðal annars fram á fundum nefndarinnar. (HöskÞ: Nei, nei, þetta er ekki rétt hjá þér.)

Í öðru lagi var ekki fullyrt að ekki yrði um frekari tillögur að ræða milli 2. og 3. umr. en það var stefnt að því, það er vissulega rétt, stefnt var að því. (HöskÞ: Nú?) Já, það var vissulega stefnt að því að hafa það þannig.

Í þriðja lagi, ef hv. þingmaður er ósáttur við það að fluttar séu tillögur á milli 2. og 3. umr. þá getur hann eins og allir aðrir flutt breytingartillögu þar sem þeim fjórum, fimm tillögum sem lagðar eru til á milli 2. og 3. umr. verði hafnað og ég skora á hv. þingmann að gera það.