141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Enn og aftur kemur upp í umræðu um fjáraukalögin að agi og festa hafi aukist í umgengni framkvæmdarvaldsins við þau fjárlög sem þingið setur ár hvert. Þetta var staðhæft við 2. umr. og er staglað ofan í þingið við 3. umr. og á að vera til vitnis um þau gríðarlega góðu tök sem núverandi stjórnarmeirihluti hefur á því að framfylgja ákvörðunum Alþingis. Hvernig er þetta? Lítum aðeins yfir söguna.

Það kann vel að vera að frávikið í fjáraukalögum og fjárlögum sé minna en hefur oft verið áður. Það kann vel að vera, en ég hef ekki áður upplifað að þeim skuldbindingum og fjárútlátum sem falla til á árinu sé ekki mætt á fjáraukalögum heldur geri menn allar ráðstafanir til að koma þeim útgjöldum sem leitt hafa af ákvörðunum ríkisstjórnar yfir í ríkisreikninginn og fela þau þar með. Þess vegna er samanburðurinn á fjárlögum hvers árs eftir fjáraukalögin og ríkisreikningi hvers árs ákaflega athygliverður. Þar sjáum við að frávikin á milli fjárlaga ársins og ríkisreiknings hafa aukist ár frá ári. Nægir í því sambandi að nefna til dæmis hallann á síðasta ári sem var helmingi meiri en ráð var fyrir gert, og hvernig farið var með útgjöld vegna Sparisjóðs Keflavíkur. Ég ætla einnig að nefna þriðja dæmið um útgjöld sem ekki er horft framan í, hvorki í fjáraukalagagerðinni fyrir árið 2012 né í fjárlagagerðinni fyrir árið 2013, sem lúta að Íbúðalánasjóði. Það er ekki með neinum hætti tekið á því í fjáraukalagagerðinni.

Þegar þetta er gagnrýnt er sagt að menn haldi fram rangfærslum og fari ekki að neinu leyti með rétt mál. Það er ekki eðlilegt að halda slíku fram, mönnum væri nær að taka rökræðu um það á hvaða grunni þessar ábendingar séu vitlausar — sem þær eru ekki. Reynt er að þagga þetta niður eins og gert hefur verið í dag með því að bera mönnum á brýn rangfærslur þegar gagnrýnin er þannig að nefndarmönnum í fjárlaganefnd og stuðningsmönnum stjórnarmeirihlutans líkar hún ekki.

Víkjum þá að orðum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar um að engar tillögur hafi komið fram við fjáraukalagagerðina. Hvernig skyldi standa á því að minni hlutinn flytji engar tillögur til breytinga á því frumvarpi ríkisstjórnarinnar? Ástæðan er mjög einföld. Meiri hluti fjárlaganefndar sem er samansettur eðlilega af stjórnarþingmönnum liggur á öllum upplýsingum um fjáraukalagagerðina. Þeim er tutlað út af ríkisstjórninni í stuðningsmenn sína í fjárlaganefnd, í meiri hlutann, en þingmenn í stjórnarandstöðunni fá engar þær upplýsingar sem eftir er leitað. Aðstaða stjórnarandstöðunnar til að gera breytingartillögur er engin og meiri hlutinn veður yfir stjórnarandstöðuna með algjöru ofbeldi. Þetta er kallað meirihlutaræði og hefur ekki þótt mikið sæmdarheiti hingað til í máli margra stjórnarliða. Það er undarlegt að upplifa að þeir séu farnir að beita þessu sjálfir.

Hvað er að því að stjórnarandstaðan óski eftir því að fá gögn sem liggja til grundvallar frumvarpsgerð? Ekki nokkur skapaður hlutur. Við höfum margoft og ítrekað gengið eftir því, síðast með því að reyna að beita ákvæðum þingskapa um að fá aðgang að gögnum, svo að við stæðum jafnfætis stjórnarliðum og værum betur í stakk búin að gagnrýna óskir ríkisstjórnarinnar. Við höfum margoft gengið eftir þessum göngum en sífellt verið neitað. Nú er svo komið að stjórnarandstaðan í fjárlaganefnd, sá minni hluti sem stendur að baki því áliti sem ég mæli hér fyrir, greiðir atkvæði gegn því í fjárlaganefnd að málið verði tekið út. Það er gert á þeim grunni að okkur skortir upplýsingar til að gera okkur hæf til að stunda það verkefni sem okkur er ætlað; að gagnrýna stjórnarathafnir meiri hlutans og hafa eftirlit fyrir hönd Alþingis með þeim ráðstöfunum sem gripið er til af ríkisstjórn gagnvart fjárlögunum. Okkur er ekki gert kleift að stunda okkar vinnu. Öðruvísi mér áður brá því þetta fellur ekki saman við þann hljóm sem kvað við hjá einstaka þingmönnum sem eru núna í hópi stjórnarliða — þótt þeim hafi fækkað óðum á undanförnum missirum eru enn þá nokkrir eftir — og þeir héldu á lofti, sérstaklega í aðdraganda kosninga 2009, um aukið gegnsæi, aukna upplýsingagjöf o.s.frv. Allt háttalag þeirra í umgengni við fjárlög íslenska ríkisins er litað af þeirri einföldu staðreynd að stjórnarandstöðunni er óheimill aðgangur að upplýsingum.

Ég þarf ekki að rifja upp hvernig þetta hefur verið fyrir þeim fjölmörgu stjórnarliðum sem sjá sér fært að sitja við þessa umræðu, en þakka ber þeim sem hér sitja, hv. þm. Lúðvíki Geirssyni. Það þarf ekki að leita langt eftir dæmum um þetta á hverju einasta ári. Gleggsta dæmið var það mál sem snerti Icesave-samninga, ef menn muna hvernig það kom upp. Gögnin voru læst inni í hirslu og menn áttu ekki einu sinni að fá aðgang að þeim, jafnvel ekki stjórnarliðar. Það var búið að mata þá í báðum þingflokkunum, þeir voru krafðir um afstöðu án þess að þeir sem óskuðu eftir því og hæstv. núverandi forsætisráðherra hafði einu sinni lesið málið. Þannig hefur öll saga þessa stjórnarmeirihluta verið og umgengni hans við fjármál ríkisins, hún er lituð því að forsvarsmenn hverju sinni hafa tæpast, og oft og tíðum ekki haft hugmynd um hvað þeir væru að leggja fyrir þingið og krefjast afgreiðslu á.

Ástæðan fyrir því að ég dvel við þetta er sú að mér ofbýður, forseti, hvernig meiri hluti fjárlaganefndar gengur fram í því að halda frá stjórnarandstöðunni upplýsingum. Núverandi meiri hluti í fjárlaganefnd treystir sér ekki einu sinni til að kalla eftir hlutlægu utanaðkomandi áliti frá Ríkisendurskoðun sem er sjálfstæð stofnun, starfar eftir lögum og hefur í rúman áratug á hverju ári gefið Alþingi mat sitt á fjáraukalögum hvers árs og fjárlögum. Ekki einu sinni í þessari stöðu treysta núverandi stjórnarliðar sér til að leggja verk sinn í dóm þessarar sjálfstæðu stofnunar. Þess í stað einbeitir forusta nefndarinnar sér að því að þagga niður í þeim embættismönnum sem þar starfa með því að gera lítið úr störfum þeirra og segja einfaldlega berum orðum úr ræðustóli að þeim sé ekki treyst til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Maður spyr sig í hvaða gír núverandi stjórnarliðar eru komnir þegar þeir reyna að tala niður sjálfstæðar stofnanir sem hafa mörkuð verkefni með lögum.

Ég tel tvímælalaust að menn séu komnir út á mjög hála braut. Þetta er verklag sem áður var tíðkað í ráðstjórnarríkjum sem óþarfi er að nefna. Mér hugnast þetta afar illa og skil þetta ekki og hef ekki fengið neinar haldbærar skýringar þrátt fyrir tafsið í formanni fjárlaganefndar áðan í andsvari. Engar skýringar eru gefnar á því hvers vegna ekki er unnið skynsamlega að fjárlagagerð ríkisins heldur er hreytt í menn ónotum.

Þjóðfélagið hefur ekki efni á slíku vinnulagi. Það er brýnt að koma þeirri áhöfn sem er við stýrisvölinn frá völdum, einfaldlega vegna þess að við sjáum á hvaða leið hún er með þjóðarskútuna. Ég nefndi að það má bera saman ríkisreikning hvers árs í stjórnartíð þessara ágætu stjórnarherra frá árunum 2009, 2010 og 2011 við fjárlög eftir fjáraukalög hvers árs, og þá sjá allir sem vilja sjá það og þora að horfast í augu við það að tökin á ríkisfjármálum, aginn og festan, eru engin.

Ég ætla að nefna eitt dæmi úr nefndaráliti minni hlutans sem að standa sá sem hér flytur málið sem framsögumaður ásamt hv. þm. Birnu Lárusdóttur, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Höskuldi Þórhallssyni. Þetta er eitt dæmi um þann gríðarlega aga og þá festu sem núverandi stjórnarmeirihluti reynir að guma af við fjárlagagerðina. Ég staldra aðeins við það ráðuneyti sem heitir velferðarráðuneyti. Það er nýtt ráðuneyti eftir gríðarlega vel heppnaðar og löngu tímabærar breytingar í ráðuneytaskipaninni að mati núverandi stjórnarmeirihluta. Ég fullyrði að velferðarráðuneytið sem veltir rúmlega helmingi allra fjárlaga íslenska ríkisins er ákaflega illa í stakk búið til að halda þau fjárlög sem Alþingi setur, af hvaða ástæðum svo sem það er.

Hvað þetta ráðuneyti varðar eru fjárlaganefnd gefnar þær skýringar að einfaldlega hafi gleymst að gera ráð fyrir verkefnum sem kosta hundruð milljóna króna. Sem dæmi er nefnt í minnihlutaálitinu að 212 millj. kr. vanti þar sem ekki var gert ráð fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til fólks í atvinnuleit erlendis. Það bara gleymdist. Þetta eru ekki nema 212 milljónir. Það var heldur ekki gert ráð fyrir 75 millj. kr. fjárheimild vegna tilraunaverkefnis um þjónustu við atvinnuleitendur sem byggðist þó á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga vorið 2011 og hafði legið fyrir síðan þá að fara ætti af stað með þetta verkefni á árinu 2012. Það var bara ekki tekið með. Það skiptir ekki máli, þetta eru ekki nema 75 milljónir. En það vill svo til aðvíða í grunnþjónustu ríkisins er kallað eftir því að halda úti lögboðinni þjónustu með óskum um miklu lægri fjárveitingar. Nægir í því sambandi að nefna einstaka lögregluumdæmi, tækjakaup í heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Nei, menn bera fyrir sig þá afsökun að þetta hafi einfaldlega gleymst eða ekki verið tekið á því í ráðuneytinu og það sullist þannig áfram að við förum bara með þetta inn í fjáraukalögin og tryggjum okkur fé þar.

Allt tal um aga og festu er byggt á fullyrðingum sem standast ekki nokkra skoðun. Það væri í sjálfu sér hægt að telja lengi upp dæmi af þessu tagi en það þjónar ekki tilgangi. Miklu nær er að hvetja til þess að menn láti af þessum ósóma og veiti þingmönnum þær upplýsingar sem þeir telja nauðsynlegar til að geta rækt hlutverk sitt. Með þessu háttalagi hefur eftirlitshlutverk Alþingis verið veikt stórum og það er engum til góðs. Það er öllum til vansa þegar menn reyna að tala þvert um hug sér í þeim efnum. Það eru alveg hreinar línur að meðan þetta gengur svona óbrjálað, eins og sagt er, mun Alþingi ekki geta rækt skyldur sínar um eftirfylgni með þeirri lagasetningu sem kölluð er fjárlög.

Ég gat um það áðan að minni hlutinn hefði mótmælt því að fjáraukalagafrumvarpið væri tekið út, af þeirri einföldu ástæðu að stjórnarandstaðan taldi að hún hefði ekki rannsakað nægilega vel frumvarp ríkisstjórnarinnar. Við höfum að mínu mati rakið mjög heiðarlegar ástæður fyrir því að við neyddumst til að greiða atkvæði gegn þessu. Það er ekki æskilegt. Maður þarf ekki að vera sammála öllum þeim ráðstöfunum sem gerðar eru í fjáraukalögum eða annarri lagasetningu en maður greiðir engu að síður ekki atkvæði gegn því að mál sé tekið út ef skynja má að það sé nægilega vel unnið og andstaða við það sé ekki neitt annað en tafagangur og því um líkt. Það er engu slíku til að dreifa nú. Nú er það einfaldlega þannig að við lítum á fjáraukalagafrumvarpið eins og það er úr garði gert fyrir árið 2012 í meðförum stjórnarmeirihlutans sem ákaflega marklítið plagg. Með sama hætti umgengst núverandi stjórnarmeirihluti, bæði í fjárlaganefnd og í ríkisstjórn, eigin stefnumörkun í ríkisfjármálum. Því miður viðurkenna menn ekki þennan vanda og horfast ekki í augu við hann heldur reyna að beita þeim aðferðum sem þeir telja bestar til að þagga niður eðlilega, heiðarlega, uppbyggilega gagnrýni. Það er sú pólitík sem stunduð hefur verið í tengslum við fjárlögin sem ég er að ræða hér, en það alversta í þessu, forseti, er að með þessu háttalagi hefur Alþingi verið gert ókleift að stunda lögbundið hlutverk sitt.