141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:40]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en brugðist við svo hörðum dómi sem heyra mátti í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur hér á undan varðandi það að hún gæfi ekkert fyrir aga, festu og aðhald í ríkisfjármálum og las sínar skýringar á fjáraukalagafrumvarpinu. Nú liggur það alveg skýrt fyrir að með þeim aðgerðum sem menn hafa gripið til í ríkisfjármálum eftir hrun, til að efla aðhald, aga og festu, er viðbótarinnkeyrsla vegna fjárauka að lækka umtalsvert á síðustu árum frá því sem áður var.

Auðvitað vildu menn hafa náð betri árangri og tryggt að þessi viðbót væri í algjöru lágmarki en það liggur þó alla vega ljóst fyrir að umtalsverður árangur hefur náðst í því að tryggja að fjárlögin síðustu ár endurspegli betur en áður hver hafa verið þau útgjöld sem stjórnvöld standa frammi fyrir hverju sinni, og það hafa þau svo sannarlega gert.

Mér fannst hv. þingmaður taka nokkuð djúpt í árinni. Hún ætti nú að þekkja það sjálf, af fyrri störfum sem sveitarstjóri, að fæst sveitarfélög hafa komist hjá því að endurskoða fjárhagsáætlun sína vegna þess að upp á koma verkefni og atvik sem þarf að bregðast við. Þarna inni geta líka verið mál sem menn áttu að hafa upplýsingar um og áttu að geta gert ráð fyrir í áætlunum sínum og það er þar sem þarf að bæta og laga.

En þegar menn eru að ræða þessi mál má líka spyrja, af því að sérstaklega var vikið að þinginu: Á Alþingi þá ekki að gefa fordæmi í þeim efnum? Hvernig stendur á því að þingið er að koma hér með óskir um viðbótarframlög sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum á sínum tíma, (Forseti hringir.) hvort sem það tengist fornleifagreftri eða einhverju öðru?