141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:14]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. varaformanni fjárlaganefndar ræðu hans og vil eiga við hann orðaskipti um gerð fjáraukalaganna. Fyrstur manna skal ég verða til þess að taka undir ósk um það að geta átt málefnaleg skoðanaskipti um innihaldið í fjáraukalögunum. Ég verð að játa það að ég er ekki vel í stakk búinn til þess að leggja mat á þá tillögu sem ríkisstjórnin leggur fram við þingið um breytingar á fjárlögum ársins 2012 af þeirri einföldu ástæðu að ég hef ekki haft tækifæri til þess að leggja mitt sjálfstæða mat á þann grunn sem þær tillögur byggja á. Það er einfaldlega þannig að stjórnarandstaðan hefur ekki sömu tækifæri og stjórnarmeirihlutinn til þess að fá upplýsingar frá viðkomandi ráðuneytum.

Því vil ég spyrja hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson nokkurra spurninga sem fyrrverandi fréttamann. Hann þótti mjög lunkinn í því starfi og það byggir á upplýsingaöflun, gagnaöflun og úrvinnslu gagna til þess að geta síðan lagt fram hlutlæga frétt. Ég spyr hv. þingmann því hvernig í ósköpunum hann geti fallist á það og staðið að því að mér, sem þingmanni með ákveðnar skyldur um aðhald við tillögugerð framkvæmdarvaldsins, sé meinaður aðgangur að þeim upplýsingum sem ég tel nauðsynlegar til þess að geta rækt mitt starf. Hvernig í ósköpum getur hv. þingmaður stutt þessi vinnubrögð?