141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að það er búið að ræða þetta margoft í fjárlaganefnd. Annaðhvort er ég svo óskýr í máli eða þá að viðtakandinn vill ekki skilja það sem farið er fram á. Það er til hugtak í blaðamennsku sem er kallað kranablaðamennska. Það er þegar menn taka við fréttatilkynningum opinberra aðila og birta þær gagnrýnislaust. Ég hef engan áhuga á að stunda slíka vinnumennsku. Meiri hlutinn kýs að stunda kranablaðamennsku. Stjórnarandstaðan vill stunda gagnrýnið eftirlit með því sem framkvæmdarvaldið er að gera og ósköp einfaldlega liggur fyrir út á hvað þetta gengur.

Í 51. gr. þingskapalaganna sem okkur er ætlað að starfa eftir stendur, með leyfi forseta:

„Ef að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna krefst þess að nefnd fái aðgang að gögnum frá stjórnvöldum út af máli sem nefndin hefur til umfjöllunar skal stjórnvald verða við beiðni nefndarinnar þess efnis eins skjótt og unnt er og eigi síðar en sjö dögum frá móttöku beiðninnar.“

Er eitthvað óskýrt í þessu? Akkúrat. Það er ekkert óskýrt í þessu. Þess vegna spyr ég hv. þingmann aftur sem fyrrverandi blaðamann og nokkuð lunkinn þannig. (Gripið fram í.) Nei, alls ekki. Hvernig í ósköpunum getur hann stutt það að gera kröfu til okkar, sem í stjórnarandstöðunni störfum, að við stundum kranablaðamennsku? Við eigum, þingsköpunum samkvæmt og þeim eiðstaf sem við höfum unnið hér, að veita stjórnarandstöðunni aðhald. Til þess að það sé virkt, geri gagn, þá þurfum við upplýsingar.