141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

lax- og silungsveiði.

390. mál
[14:23]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þingskjali 466 sem er 390. mál. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Frumvarpið fjallar fyrst og fremst um deildir í veiðifélögum. Frumvarpið er samið að tilhlutan ráðuneytisins á grundvelli tillagna starfshóps sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði hinn 17. nóvember 2011 til að endurskoða reglugerð nr. 1024/2006 um starfsemi veiðifélaga og einnig reglugerð nr. 412/2007 um arðskrár veiðifélaga. Báðar voru settar samkvæmt lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði.

Forsaga málsins er sú að hinn 1. júlí 2006 tóku gildi ný lög nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, en við framkvæmd þessara laga hefur komið í ljós að gera þarf tilteknar breytingar og lagfæringar á þeim. Við vinnu framangreinds starfshóps kom í ljós að ákvæði 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, sem hefur að geyma heimild til að stofna deildir í veiðifélögum er svo óljóst að ekki reynist unnt að byggja á því ný og ítarlegri ákvæði í reglugerð um starfsemi deilda í veiðifélögum með því efni sem starfshópurinn taldi nauðsynlegt.

Lagði starfshópurinn af því tilefni til við ráðherra að unnið yrði frumvarp með þeim breytingum á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, sem nauðsynlegar yrðu taldar til að unnt yrði að setja nánari ákvæði um starfsemi deilda í reglugerð. Í framhaldi af því ákvað atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að fela starfshópnum að semja frumvarp það sem hér er til umfjöllunar.

Núgildandi ákvæði um deildir í veiðifélögum er að finna í 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, en þar kemur fram að heimilt sé að ákveða í samþykktum að veiðifélag skuli starfa í deildum. Enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns. Umrætt ákvæði 4. mgr. 39. gr. laganna hefur verið óbreytt í lögum frá árinu 1957 þegar sett voru lög nr. 53/1957, um lax- og silungsveiði.

Framangreint ákvæði hefur verið framkvæmt með ýmsum hætti eftir að það var lögfest og ýmis álitaefni komið upp. Til dæmis varðandi ójafna stöðu félagsmanna við meðferð atkvæðisréttar í veiðifélögum sem ekki eru deildaskipt að öllu leyti og starfrækja deildir um hluta félagssvæðisins. Í þeim tilvikum hafa félagsmenn deilda atkvæðisrétt á svæði deildar og einnig atkvæðisrétt á fundum í veiðifélaginu þegar verið er að ráðstafa veiði á öðrum svæðum félagsins þar sem þeir eiga ekki beinna hagsmuna að gæta.

Þetta fyrirkomulag leiðir til ójöfnuðar þar sem félagsmenn í deildum hafa í raun ríkari atkvæðisrétt en félagsmenn á öðrum svæðum í veiðifélagi sem ekki starfar í deildum. Einnig er sjálfstæði deilda samkvæmt núgildandi lögum mjög takmarkað. Margar deildir í veiðifélögum starfa hins vegar eins og um væri að ræða sjálfstætt veiðifélag. Deildir innan veiðifélaga hafa þannig haldið sérstaka arðskrá og deilt arði á félagssvæði deildarinnar þótt slíkt sé ekki í samræmi við reglur laganna um arðskrá í veiðifélögum.

Þá hafa deildaskipt veiðifélög í einstökum tilvikum starfað sem fulltrúafélög deilda en heimild til þess er ekki í gildandi lögum. Af þessum sökum er nauðsynlegt að setja skýrari ákvæði í löggjöfina um þetta efni enda verður einnig að líta til skylduaðildar veiðiréttareiganda að veiðifélögum. Óljós ákvæði gildandi laga um starfsemi deilda innan veiðifélaga hafa leitt til ágreinings innan veiðifélaga og réttaróvissu við framkvæmd laganna þar sem sjálfstæði deilda er mjög takmarkað í gildandi löggjöf, eins og áður sagði.

Við samningu frumvarpsins hefur verið reynt að lagfæra framangreinda annmarka á lögunum og tryggja að ákvæði um deildir í veiðifélögum í lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, verði skýr og auðveld í framkvæmd þannig að jafnræði verði milli félagsmanna deilda og almennra félagsmanna í veiðifélögum.

Með frumvarpinu hefur einnig verið reynt að tryggja að skýr lagarammi verði um starfsemi veiðifélaga og deilda innan þeirra og að lagastoð sé til staðar til að setja reglugerð um starfsemi deilda með því efni sem nauðsynlegt er talið.

Lagt er til að áfram verði heimild í lögum til að starfrækja deildir í veiðifélögum en þá skuli skipta öllu veiðifélaginu í deildir. Einnig eru lagðar til ýmsar reglur um starfsemi deilda í veiðifélögum.

Til viðbótar við framangreint eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, sem talið var rétt að gera með sama frumvarpi. Meðal annars er lagt til að breytt verði ákvæði um tímamörk reglna sem veiðifélag eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki starfa veiðifélög, setja um stangveiði á veiðisvæði sínu. Einnig er lagt til að ákvæði 1. málsliðar 5. mgr. 41. gr. laganna verði breytt og felldur verði brott 2. málsliður 5. mgr. 41. gr. laganna. Fyrrnefnda ákvæðið er ekki í samræmi við meginreglur laganna um gildistöku arðskrár sem unnin er af matsnefnd. Síðarnefnda ákvæðið hefur ekkert raunhæft gildi þar sem kærufrestur samkvæmt 4. mgr. er liðinn.

Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði til bráðabirgða þess efnis að samþykktum veiðifélaga sem starfa í deildum skuli breytt til samræmis við fyrirmæli frumvarpsins, ef það verður að lögum, í síðasta lagi innan tveggja ára frá gildistöku þeirra.

Herra forseti. Ég vil árétta að ákvæði frumvarpsins fela í sér nokkrar breytingar á inntaki og framkvæmd starfsemi deilda í veiðifélögum. Hér er aðallega verið að fela deildum í veiðifélagi sjálfstæði til að fara með verkefni sem verður að teljast nauðsynlegt með hliðsjón af þeirri lagaheimild að ráðstafa veiði á vatnasvæði deildarinnar. Í því felst að deild geti samhliða ráðstöfun veiði ákveðið veiðiaðferð samanber ákvæði laganna um nýtingaráætlun. Einnig er deild veitt lagaheimild til að ráðstafa arði meðal félagsmanna deildar en þá heimild er ekki að finna í núgildandi lögum. Slík heimild felur í sér að réttur deildar til að halda arðskrá og að skjóta ágreiningi um hana til mats nefndar á grundvelli gildandi laga verði tryggður.

Þá hefur frumvarpið að geyma nauðsynlegar formreglur um starfsemi deildar í veiðifélagi sem ekki er að finna í gildandi löggjöf um lax- og silungsveiði. Þá tekur frumvarpið af öll tvímæli um að deildaskipta skuli öllu veiðifélaginu, starfi veiðifélagið í deildum. Með þessu ákvæði er skerpt á þeirri hugsun að vegna skylduaðildarinnar að veiðifélögum skuli allir félagsmenn jafnir vera gagnvart lögum innan veiðifélags og gildi þá einu hvort veiðifélag starfar í deildum eður ei.

Við samningu frumvarpsins var fjallað um tvo kosti við breytingu á lögunum. Það er annars vegar að fella brott ákvæði 4. mgr. 39. gr. laganna um heimild veiðifélaga til að starfa í deildum og þá hefðu þau að sjálfsögðu orðið öll einsleit og starfað á öllu veiðisvæði eða vatnasvæði viðkomandi sem í hlut átti. Hinn kosturinn er sá að gera áfram ráð fyrir því að veiðifélög geti verið deildaskipt en setja þá skýr ákvæði í lögin um starfsemi deilda og veiðifélaganna í heild miðað við þá niðurstöðu. Það var einmitt sá kostur sem var valinn og ég hef hér útskýrt.

Ástæða þess að sú leið er valin fremur en hin, að fella niður heimildina til að deildaskipta veiðifélögum, er að mikill fjöldi deilda starfar í veiðifélögum í dag og fyrri kosturinn hefði því falið í sér miklum mun meiri röskun á því fyrirkomulagi sem er til staðar heldur en hinn, að leyfa áfram deildaskiptingu veiðifélaga en setja þá um það skýrar reglur.

Á fylgiskjali með frumvarpinu er að finna venjubundna kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarpið og ekki meira um það að segja. Að öðru leyti vísa ég til ítarlegrar greinargerðar sem því fylgir en þar er rækilega gerð grein fyrir efni frumvarpsins og læt ég þar með máli mínu lokið, virðulegi forseti, og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.