141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

opinber innkaup.

288. mál
[14:47]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil nota það tilefni sem hér gefst vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um opinber innkaup, þar sem verið er að fjalla sérstaklega um aukna skilvirkni í meðferð kærumála, til að ræða opinber innkaup og sérstaklega útboðsskyldur og möguleika opinberra stofnana til að leita í raun eftir virkri samkeppni og lágum verðum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Herra forseti. Á 139. löggjafarþingi kom fram frumvarp, sem er að finna á þskj. 206, þar sem sett var inn ný 18. gr. a um innkaup í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins. Þarna var opnuð leið til að miðlæg innkaupastofnun, eins og það er orðað, geti boðið út innkaup sem falla undir þessi lög á Evrópska efnahagssvæðinu, annaðhvort sér eða í samstöðu við erlenda aðila, systuraðila, eða í samstarfi við miðlægar innkaupastofnanir erlendis. Fyrir þessu voru sett ansi rík skilyrði, m.a. að viðkomandi ríki þar sem útboðið færi fram væri á Evrópska efnahagssvæðinu og að reglur um opinber innkaup þar hefðu verið innleiddar í rétt viðkomandi lands og sérheimild þyrfti í hvert sinn sem hægt væri að bjóða út innkaup með þessum hætti og rökstudda beiðni þar um. Auk þess þyrfti þetta útboð að þjóna hagkvæmni, virkri samkeppni eða öðrum lögmætum sjónarmiðum.

Herra forseti. Opinber innkaup eru gríðarlega stór hluti ríkisútgjalda eins og við vitum. Þetta frumvarp til laga var meðal annars sett fram í tilefni af því að á árinu 2009 námu opinber innkaup á vegum heilbrigðisráðuneytisins, þ.e. nú velferðarráðuneytis, til heilbrigðisþjónustu 11 milljörðum kr. Stærsti hlutinn er auðvitað lyfjakaup frá útlöndum. Tilefni þessa frumvarps var einmitt áhugi hjá Landspítalanum á því að kanna í tilteknum tilvikum möguleika á sameiginlegu lyfjaútboði spítalans og systurstofnana í Noregi því að það er staðreynd að innkaupastofnun heilbrigðisstofnana í Noregi gerir mun betri kaup en við getum gert á Íslandi vegna stærðarhagkvæmninnar. Þar nýtur samkeppnin sín betur en hér því að því miður berst oft aðeins eitt tilboð og jafnvel ekkert í útboð á dýrustu lyfjunum. Ríkið, þ.e. Landspítalinn og nú væntanlega sjúkratryggingastofnun með S-merktu lyfin, þarf að greiða uppsett verð og það er oft mun dýrara en systurstofnanir spítalans ná í innkaupum sínum. Það er upplýst að vilji er til þess bæði á Landspítalanum og hjá innkaupastofnuninni í Noregi að hafa sameiginleg lyfjaútboð. Meira að segja í Danmörku hafa menn horft til þess hvað innkaupastofnun heilbrigðisstofnana í Noregi gerir góð kaup á lyfjamarkaðnum og hugleitt að fara inn í þetta sama ferli.

Þetta frumvarp var til umfjöllunar veturinn 2010–2011. Í stuttu máli er hægt að segja að lyfjaiðnaðurinn, þ.e. lyfjaframleiðendur, sem eru óhemjusterkt hagsmunaafl í landinu, lyfjainnflytjendur og lyfjasalar, brugðust ókvæða við og þóttust merkja að verið væri að opna undankomuleið frá reglum um opinber innkaup sem ekki tryggði samkeppni og útilokaði jafnvel innlenda aðila frá því að bjóða í. En eins og ég sagði var þetta frumvarp bæði með belti og axlabönd. Sækja átti heimild í hvert sinn og upplýsa að kaupin þjónuðu hagkvæmni og virkri samkeppni eða öðrum lögmætum sjónarmiðum.

Það var svo að í maí 2011 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um opinber innkaup í þessa veru, en breytti frumvarpinu verulega þannig að sú heimild sem þarna var opnuð hefur ekki verið virk, það er ekki hægt að nýta hana. Með því að opna þessi lög er erindi mitt í ræðustól Alþingis að hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að kanna hvort auka megi hagkvæmni í opinberum innkaupum á lyfjum með því að styrkja þá heimild sem hér var sett í lög þannig að hún virki.

Ég tók á sínum tíma þátt í afgreiðslu þessa máls og var framsögumaður breytingartillagna sem hv. viðskiptanefnd flutti á þeim tíma og í trausti þess að þær breytingar sem nefndin gerði á frumvarpinu yrðu ekki til að eyðileggja málið studdi ég það, en því miður varð ekkert af því. Lögin eru ónýt að því leytinu til að þau ná ekki tilgangi sínum. Ég mun vekja máls á þessu aftur í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar, sem mun vera hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég vil einnig hvetja hæstv. ráðherra til að skoða þetta því að hér er um gríðarlegar fjárhæðir að tefla. Það er ekki eins og verið sé að koma sér undan útboðum eða eðlilegri samkeppni. Hver er munurinn fyrir lyfjarisann að bjóða í stórt útboð í Noregi þegar litli Landspítalinn er hluti af því eða bjóða hér heima? Því miður eru oft, eins og ég sagði, engin tilboð í dýrustu lyfin sem um ræðir.