141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

264. mál
[15:05]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir eindrægni hans í þessu máli um árabil. Húshitunarkostnaður brennur mjög á fólki víða um land. Eins og hv. þingmaður gat um er um minni hluta landsvæða að ræða en engu að síður er munurinn á húshitunarkostnaði þar sem hann er hæstur og þar sem hann er að jafnaði lægstur svo mikill, svo himinhrópandi, að ekki verður við unað nema ríkisvaldið grípi til jöfnunaraðgerða.

Mikið er talað um jafnt vægi atkvæða nú um stundir en minna um jafnt vægi þjónustu. Sá sem hér stendur telur að jafnt vægi atkvæða eigi ekki að verða að veruleika fyrr en við séum að minnsta kosti komin til móts við jafnt vægi þjónustu. Þar brennur húshitunarkostnaðurinn mjög rækilega á fólki eins og ég gat um í upphafi. Ég minnist þess að hafa rætt við konu úti á landi sem hafði um stundarskeið flust til Reykjavíkur, var þar í stigagangi og gerðist gjaldkeri húsfélagsins. Hún áttaði sig á því eftir nokkra mánuði að hún hafði borgað húshitunarkostnaðinn fyrir allan stigaganginn, taldi þetta eðlilegan kostnað, var svo vön háu gjaldi að hún borgaði fyrir alla í ganginum.

Við þetta ástand verður auðvitað ekki unað og ég vil varpa þeirri spurningu til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar hvort þetta mál þurfi að taka saman með öðrum jöfnunaraðgerðum og hvernig því verði við komið á næstu árum.