141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

264. mál
[15:07]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að ræða þessi mál í samhengi við það sem hv. þingmaður var að nefna. Við getum rætt um flutningskostnað og ýmislegt annað sem við höfum oft fjallað um í ræðustól Alþingis. En það sem fyrir mér vakir, og ég hygg að við sem höfum verið að tala um húshitunarmál á afmörkuðum stöðum sem búa við þennan vanda höfum lagt áherslu á það, er einfaldlega að þarna er um að ræða svo stórt mál, mál sem ég hef trú á að við getum sameinast um, að það er mjög mikilvægt að reyna að einbeita sér að því sérstaklega.

Við getum sagt að það séu ákveðnar frumþarfir sem í því felast að geta haft efni á því að hita upp húsið sitt, það er krafa sem við hljótum að gera til lífsins að geta staðið undir því. Þegar kostnaðurinn er svona gríðarlega mikill á einstökum svæðum — og hann er náttúrlega mestur í dreifbýli, hann er enn þá meiri þar en í þéttbýli þrátt fyrir allt — blasir vandinn við. Hugsunin á bak við þetta er einfaldlega þessi: Dreifingarkostnaðurinn á rafmagninu sem er reiknaður út og leggst ofan á raforkuverðið er samfélagslegt verkefni. Það er ekki hægt að segja að þær sálir sem búa á þessum stöðum þurfi að standa einar undir því. Þess vegna er eðlilegt að við segjum sem svo: Þetta er verkefni sem við ætlumst til að við tökum öll á okkur, þjóðin. Hér er lögð fram tillaga um að þetta verði gert þannig að lagt verði gjald á selda raforku sem allir yrðu að taka á sig og standa þannig sameiginlega undir kostnaðinum. Eftir sem áður yrði illu heilli heilmikill munur en þarna er þó alla vega stigið skref í rétta átt, skref sem er í samræmi við tillögur sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar og fulltrúar hinna köldu svæða sem sátu í nefndinni stóðu að. Ég hef trú á því að um þetta gæti orðið sæmileg samstaða.