141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

264. mál
[15:09]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir tölu hans í þessa veru. Það er mjög eftirtektarvert hve fáir Íslendingar gera sér grein fyrir því hversu mjög þetta mál brennur á fólki á köldustu svæðunum. Hér erum við að tala um frá fjórföldum mun og upp í tífaldan mun á kjörum á þessu sviði, og eins og hv. þingmaður gat um er þetta ein af frumforsendum þess að lifa af íslenskan vetur.

Það er hins vegar vert að skoða þær leiðir sem hægt er að fara að þessu setta marki í heild sinni og þess vegna vildi ég færa þetta út á breiðari grundu. Við þingmenn og þeir sem fjalla um löggjöf hverju sinni þurfum að skoða möguleika á leiðum sem aðrar þjóðir í kringum okkur eru að fara í auknum mæli. Vil ég þar sérstaklega nefna Norðmenn sem hafa að einhverju leyti notað skattkerfið til að jafna þjónustukjör af þessu tagi. Það hefur ekki verið skoðað á Íslandi af miklum móð.

Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þingmanns sem þekkir þetta mál vel, komandi af Vestfjörðum, hvort jafna megi þjónustuvægið með því að nota skattkerfið eða einhvers konar tilfærslukerfi. Norðmenn hafa farið aðrar leiðir, t.d. með því að niðurgreiða námslán til ungmenna sem setjast að úti á landi, en aðallega hafa þeir notað skattkerfið til að jafna aðstöðumun fólks eftir því hvar það velur sér búsetu. Ég spyr því hv. þingmann hvort þetta sé leið sem eigi að skoða.