141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

264. mál
[15:13]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er held ég enginn pólitískur ágreiningur uppi í þessum sal um mikilvægi þess að jafna húshitunarkostnað á landinu og lækka húshitunarkostnað á köldum svæðum. Um það eru allir sammála og hafa lengi verið í orði kveðnu. Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vísaði til í framsögu sinni var sett á laggirnar nefnd sem skilaði tillögum til ráðherra um lækkun húshitunarkostnaðar og stjórnvöld hafa nú þegar beitt sér fyrir einni lagabreytingu í þá átt að lækka húshitunarkostnað, en betur má ef duga skal, það er algjörlega rétt. Hv. þingmaður talaði um að hér væri mjög stórt mál á ferðinni, talaði um frumþarfir sem ég get alveg tekið undir. Ég bý á Ísafirði og borgaði þar í síðasta mánuði 40 þús. kr. fyrir mína húshitun samanborið við 10 þús. kr. fyrir sambærilegt húsnæði hér í borginni. Ég þekki þetta á eigin skinni.

Nú er það þannig að hv. þingmaður hefur verið þingmaður frá árinu 1991. Á þeim tíma hefur flokkur hans verið við stjórnvölinn allar götur til ársins 2009 í bullandi góðæri, þegar peningar streymdu úr ríkissjóði, menn einkavæddu hægri, vinstri meðal annars símann og grunnnetið með öllu saman. Hvernig stendur á því að í því bullandi góðæri, fyrst vilji hv. þingmanns er svo skýr og skilningur hans á málinu svo ríkur sem skilja má af orðum hans, að ekki vannst meira í góðærinu í þá átt að jafna húshitunarkostnað á landinu?