141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

264. mál
[15:15]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég segja að það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að stórt skref hafi verið stigið í þá átt að mæta þessum tillögum. Stigið var hænufet og tæplega það. Það var ein tillaga sem fjallaði um það að þær hitaveitur sem hefðu fengið styrki frá ríkinu yrðu ekki skertar með öðrum styrkjum. Það var nú allt og sumt. Síðan tókum við í atvinnuveganefnd, meðal annars eftir að ég hafði boðað það í umræðunni að það yrði gert ella, upp á okkar arma aðra tillögu úr þeirri nefnd og það var síðan gert að lögum. Það er það eina sem hefur gerst í þessum efnum.

Hv. þingmaður sagði að lítið hefði áunnist á síðustu árum. Ég sagði áðan að það hefði gengið mjög misjafnlega. Ég rakti raunar í máli mínu þróunina frá árinu 2007. Þá var varið 1,6 milljörðum kr. til niðurgreiðslna, 1,8 árið 2008 en er núna 1,2 milljarðar kr. samkvæmt næsta fjárlagafrumvarpi. Þetta er allt á verðgildi núgildandi árs. Það munar þarna 500–600 millj. kr.

Ég ætla ekki að gera óskaplega mikið úr því að við höfum verið að ná svo glæsilegum árangri. Þó vil ég draga það fram að miklu skiptir hvort við erum með tölur 30% lægri eða ekki, þær eru 30% lægri núna að raungildi en þær voru 2008, sem er mun meiri niðurskurður en svarar til niðurskurðar ríkissjóðs almennt. Ég ætla ekki að fara að stæra mig af því að okkur hafi gengið svo óskaplega vel. Ég benti einmitt á að það hefði gengið misjafnlega og þess vegna hafi það verið mín niðurstaða, meðal annars eftir áralanga setu á Alþingi, að við yrðum að finna varanlegri lausn. Hv. þingmaður var meðflutningsmaður minn að máli sem fól það nákvæmlega í sér að setja á laggirnar nefnd sem mundi hafa það verkefni að móta tillögur um þetta til frambúðar þannig að það væri eitthvað áreiðanlegra sem við hefðum á að byggja.

Ríkisstjórnin má segja tók upp sams konar tillögu, ég er ekki að segja að hún hafi ljósritað tillöguna mína en það vildi þannig til að hún komst að sömu niðurstöðu um að setja á laggirnar sams konar nefnd og mælt var fyrir í tillögum okkar hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur og fleiri. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu sem er hérna. Því miður er ekki að finna á 177 mála skrá ríkisstjórnarinnar neitt í þá veru (Forseti hringir.) og því tók ég af skarið, lagði í það vinnu að undirbúa frumvarpið og fékk fjölda flutningsmanna meðal annars úr flokki hv. þingmanns til að flytja málið með mér.