141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

264. mál
[15:36]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma örstutt upp til að taka undir með þeim sem hafa tjáð sig um frumvarpið sem liggur fyrir og fagna framkomu þess. Ég skynja það heima hjá mér vestur á fjörðum að þung undiralda er út af þessu máli vegna þess að í rauninni dregur á milli landsmanna þegar kemur að húshitun og húshitunarkostnaði. Það er mál að linni.

Eins og ég hef skilið málið er ekki um bein fjárútlát ríkisins að ræða heldur jöfnunaraðgerð þar sem 10 aurum yrði bætt ofan á hverja kílóvattstund þannig að úr yrðu um það bil 500–600 millj. sem gætu nýst til þeirrar jöfnunaraðgerðar. Ég held að um mjög brýnt réttlætismál sé að ræða sem ég hef fulla trú á að þingheimur sjái ástæðu til að standa við bakið á. Þetta er forgangsmál eins og komið hefur ágætlega fram í máli flutningsmanna. Það að 14 þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum skuli standa að frumvarpinu hlýtur að sýna fram á samstöðuna sem á að geta ríkt um þetta mál. Ég held að það þjóni nú ekki neinum tilgangi að velta vöngum yfir því sem hefði átt að vera gert hér á árum áður. Vafalaust hefðu menn átt að spýta í lófana og gera betur en ef einhverjir aðrir stóðu sig ekki í stykkinu er það ekki ástæða til þess að gera ekki betur núna.

Ég held og skynja það að enginn pólitískur ágreiningur er um þetta góða málefni. Mér þætti ekki verra að geta staðið á bak við svona frumvarp og veitt því brautargengi í þann stutta tíma sem ég fæ að sitja á þingi. Virðulegi forseti. Þetta er mikið hagsmunamál og ég óska þess innilega að þingheimur samþykki það.