141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um breytta framtíðarskipan refaveiða. Fyrsti flutningsmaður er sá sem hér stendur en aðrir flutningsmenn eru hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir, Birkir Jón Jónsson, Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Einar K. Guðfinnsson, Ólöf Nordal, Jón Gunnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Árni Johnsen.

Þessi þingsályktunartillaga gengur út á það, frú forseti, að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að breyta framtíðarskipan refaveiða. Markmiðið verði að refastofninum verði haldið innan eðlilegra marka, svo það náist verða þessar breytingar að fela eftirfarandi í sér:

1. Að refaveiðar verði ekki bannaðar á ákveðnum landsvæðum líkt og nú er.

2. Að teknar verði aftur upp greiðslur úr ríkissjóði vegna fækkunar refa.

3. Að rannsóknir verði á hendi vísindamanna en veiðistjórnun, þ.e. skipulagning, stjórnun og leiðbeiningarþjónusta við veiðimenn, á hendi reyndra veiðimanna.

4. Að samið verði við Samband íslenskra sveitarfélaga eða landshlutasamtök sveitarfélaga um að sjá um skipulagningu veiðanna og greiðslur til veiðimanna.

5. Að greiðslur fyrir hlaupadýr og grenjavinnslu verði þær sömu um land allt.

Þingsályktunin gerir ráð fyrir því að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að leggja fyrir Alþingi fyrir 1. apríl 2013 frumvarp til laga um þau atriði sem krefjast lagabreytinga.

Ég held að það sé gott að fara aðeins yfir aðdraganda málsins í upphafi. Staðreyndin er sú að þessi mál hafa verið í ákveðnum lamasessi undanfarinn áratug. Ref hefur fjölgað gríðarlega mikið en á síðustu árum hefur fjölgunin verið enn meiri. Það sætti töluverðri furðu að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra skyldi á sínu fyrsta ári á þessu kjörtímabili og sínu fyrsta ári í ráðuneyti leggja til að fjárveitingum til refaveiða yrði algerlega hætt. Það vakti sérstaklega furðu í ljósi þess að þegar hafði verið sýnt fram á að það fjárframlag sem ríkissjóður veitti til málaflokksins væri lægra en virðisaukaskattur af fjárframlaginu og mótframlagi sveitarfélaganna. Margir vöktu máls á því að þetta mundi að öllum líkindum leiða til þess að vegna fjárhagsvandræða ákvæðu sveitarfélög að nota tækifærið og hætta fjárstuðningi við refaveiðar. Þar með mundu tekjur ríkissjóðs lækka. Þetta hefur komið á daginn. Mörg sveitarfélög sem eru kannski með stórum þéttbýliskjörnum og landstór sveitarfélög hafa skorið niður fjárveitingar til refaveiða og þar af leiðandi hefur virðisaukaskattur til ríkissjóðs dregist saman.

Það var líka talað um og varað við því að sú ákvörðun yrði tekin af hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra vegna þess að menn höfðu orðið varir við að ref hefði fjölgað mjög mikið á undanförnum áratugum.

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu kemur meðal annars fram að ref hefur fjölgað frá því að vera um þúsund dýr þegar hann var í lágmarki á árunum 1973–1975 en árið 2007 hafi áætluð stofnstærð verið um 10 þús. dýr. Þetta þýðir tíföldun á mjög skömmum tíma. Líkur má leiða að því að stofninn hafi stækkað með líkum hraða síðan 2007.

Margir vöruðu við því að það að hætta fjárveitingum til refaveiða mundi stuðla að fjölgun dýrbíta og að fuglalíf á ákveðnum svæðum drægist meira saman en orðið er. Ég held að það hafi sýnt sig, frú forseti, að það átti við rök að styðjast. Við sjáum að á ákveðnum svæðum fjölgar dýrbitnu fé gríðarlega. Vanhöld eru mun meiri og fuglalíf, til að mynda á Hornströndum og fleiri svæðum, er ekki svipur hjá sjón. Þetta kallar auðvitað á að brugðist sé við og ætti hæstv. umhverfisráðherra að hafa forustu um það mál. Það er því gríðarlega dapurlegt að það ráðuneyti og sá ráðherra sem á að fjalla um umhverfismálin skuli taka þennan pól í hæðina fremur en að beita sér fyrir því að þetta sé skipulagt.

Sumir hafa efast um að þetta hafi einhver áhrif á fuglalíf og það séu aðrir þættir sem búi að baki. Þeir sem fara mikið um landið, hafa farið um Hornstrandir, eru á fuglaveiðum, ganga til fjalla og annað því um líkt og búa í dreifbýli, hafa orðið varir við að fugli hefur fækkað mjög. Mófugli hefur fækkað mikið og það er ekkert skrýtið því töluvert mikið þarf til að fóðra einn ref.

Til þess að vekja máls á því hversu mikið refurinn þarf ætla ég, frú forseti, í þessu samhengi að vitna í frétt sem var í Vikudegi á Akureyri 15. júlí 2011. Þar segir frá Hilmari Stefánssyni og Aðalsteini Jónssyni á Víðivöllum sem stundað hafa refaveiðar í Svalbarðsstrandarhreppi og á suðursvæði Fnjóskadals til margra ára. Þeir skutu ref á svæðinu í júlí og var refurinn með 23 þúfutittlingsunga í kjaftinum og var að bera æti í grenið — 23 þúfutittlingsunga. Með greininni fylgdi ljósmynd af refnum þar sem hann var búinn að koma þúfutittlingsungunum fyrir í kjaftinum og var að bera æti í grenið. Það þarf enginn að efast um að það er eitthvað sem refurinn étur. Sú gríðarlega fjölgun sem orðið hefur á ref allt í kringum landið veldur því að fuglum fer víða fækkandi, fuglalíf er orðið minna og meira verður um dýrbitið fé.

Það liggja ekki fyrir rannsóknir á því hversu mikið refurinn étur en reyndir menn hafa bent á að ekki sé ósennilegt að til þess að koma upp ungum þurfti hvert refagreni um 80 kg af hreinu kjöti frá því að yrðlingarnir fæðast og þar til þeir skríða úr því.

Sveinn Björnsson, refaskytta í Þingeyjarsýslu, hefur gluggað í þau mál og meðal annars notast við eldri rannsóknir og upplýsingar frá þeim sem reka hér refabú, og fleirum, og stuðst við rannsóknir dr. Páls Hersteinssonar sem reyndi að greina það á sínum tíma hvernig ætinu væri skipt í maga refs. Ef við áætlum að einn refur í búri éti um 210 kg af fóðri á ári og göngum út frá því að það sé sambærilegt því sem einn refur þurfi hér, og tökum inn í að koma upp yrðlingum og annað slíkt, reiknum það síðan upp og förum í rannsóknir dr. Páls Hersteinssonar sýndu þær að alla jafna má á ákveðnum svæðum reikna með að í maga refs sé: 15% rjúpa, 15% gæs, 12% fýll, 12% allir aðrir greindir fuglar, 13% ótilgreindir fuglar, 10% egg, 15% sauðfé, 4% úr fjörunni, þ.e. fiskar, hrognkelsi o.fl., og önnur 4% væru hræ, mýs og o.fl.

Ef við reiknum út frá þessum upplýsingum hvað einn refur étur mikið á ári má reikna með að hann éti 63 rjúpur, 9 gæsir, 32 fýla, 175 fugla aðra en ofantalda, 263 egg og 1,26 lamb. Eins og ég kom inn á áðan hefur refastofninn farið úr því að vera um þúsund dýr upp í líklega 12–13 þús. dýr í dag. Ef við reiknum með 12 þús. dýrum erum við að tala um að allur refastofninn étur 750 þús. rjúpur, rúmlega 100 þús. gæsir, 380 þús. svartfugla, 2 millj. annarra fugla, 3 millj. eggja og um 15 þús. lömb. Það er nefnilega svo að refurinn þarf að éta. Ef reiknað er með því að það sé minna en 200 kg sem refurinn étur og farið niður í 100 kg eru þetta engu að síður gríðarlega háar tölur. Það kemur auðvitað heim og saman við að rjúpnaskyttur sem ganga til rjúpna í dag tala um að lítið sé af rjúpu. Þær tala um að það sé nánast sama hvenær menn fara að morgninum, hversu snemma þeir fara, ef það hefur snjóað um nóttina sé það ævinlega svo að þegar komið er á rjúpnaslóð sé refurinn búinn að vera þar á undan. Hann þræði allar rjúpnabrekkur, öll bæli og alls staðar séu refaslóðir þar sem rjúpan hefur verið.

Frú forseti. Ég held að augu manna hafi kannski opnast fyrir þessu þegar við fengum fregnir af því að refurinn væri farinn að ganga í lifandi fé sem grafið var í fönn í bylnum í september. Ég held að þetta kalli allt á það að við förum að taka upp skynsamlega stefnu í þessum málaflokki. Það er það sem lagt er til í þingsályktunartillögunni.

Hún leggur til að breytt verði framtíðarskipan refaveiða á Íslandi, ekki með það að markmiði að útrýma refnum heldur að halda stofnstærð innan ákveðinna marka.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að ráðherra verði falið að leggja fram lagafrumvarp, eins og ég sagði hér áðan, með nauðsynlegum breytingum á lögum þar sem ákveðin verði hæfileg stærð refastofnsins, sem gæti legið nærri 4–5 þús. dýrum sem er um helmingurinn af því sem stofnstærðin er í dag, og kveðið á um að stofnstærðinni verði haldið. Til þess að það sé hægt verðum við að gera veiðarnar markvissari, tryggja að engin landsvæði verði undanskilin og að þetta sé skipulagt á stærri svæðum en er gert í dag. Með því getum við náð þessum mörkum.

Við skulum líka hafa það á hreinu, af því ég kom inn á það áðan, að það er enginn að tala um að útrýma refnum. Sumir tala um að það megi ekki skjóta refi vegna þess að refurinn sé frumbyggi hér eins og við. Allt frá landnámi hefur verið reynt að takmarka stofnstærð refsins með veiðum þannig að hægt væri að lágmarka skaða hans á búfénaði og öðrum skepnum landsins. Við höfum fengið af því margar fregnir í gegnum tíðina. Það hefur verið notað eitur, refur hefur verið skotinn og annað því um líkt.

Þegar ég er spurður að því hvort til standi að útrýma refnum og að refurinn eigi fullan rétt, vitna ég alltaf til sögu sem Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn, sagði mér eitt sinn. Hann sagði að ef hann kæmi að síðasta refagreninu mundi hann gera allt sem hann gæti til þess að tryggja að yrðlingarnir kæmust upp. Þetta er maður sem hefur stundað refaveiðar, fuglaveiðar og býr norður í Ísafjarðardjúpi. En ef hann kæmi að síðasta minkagreninu mundi hann gera allt sem hann gæti til þess að útrýma helvítis kvikindinu. Þú fyrirgefur orðalagið, frú forseti, þetta er haft orðrétt eftir þessum ágæta bónda, (Gripið fram í: … með leyfi virðulegs forseta …) með leyfi virðulegs forseta.

Þetta segir okkur að þeir sem búa í náttúrunni, þeir sem hvetja til þess að þau mál verði endurskoðuð, hafa líka fullan skilning á þeim sjónarmiðum að refurinn er fallegt dýr. Refurinn er einn af frumbyggjum landsins og það er enginn að tala um að útrýma honum. Það er verið að tala um að við nálgumst þennan málaflokk af skynsemi. Að við nálgumst hann út frá því að við ætlum að halda stofnstærðinni þannig að ekki gangi á fuglalíf og búfénað í landinu, dýrbítar heyri sögunni til og annað því um líkt. Það gerist eins og ég sagði, frú forseti, með skynsamri nálgun. Ég held að þessi þingsályktunartillaga geri það að verkum að við munum nálgast málaflokkinn af meiri skynsemi og minni öfgum en við höfum séð undanfarin ár.

Ég vona svo sannarlega, um leið og ég legg til að þessu verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar, að náttúrunnar vegna nái þingsályktunartillagan fram að ganga fyrr en seinna.