141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka strax fram að ég tek undir þau orð hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar að það beri að nálgast þessi mál af skynsemi, og við lestur þessarar þingsályktunartillögu finnst mér menn einmitt reyna að nálgast málið öfgalaust og af skynsemi sem er svo mikilvægt. Ég tek því undir þá tillögu sem hér liggur fyrir. Ég tel einnig að það verði að skoða þróun refastofnsins með tilliti til rjúpnastofnsins. Við erum einmitt að ræða þetta mál á miðju rjúpnaveiðitímabili — það er varla hægt að tala um tímabil lengur, þetta eru bara tvær, þrjár helgar í dag. Mér finnst erfitt að treysta mati umhverfisráðherra, burt séð frá á hvaða gögnum er byggt, þegar ekki er tekið tillit til þess hvaða áhrif refurinn hefur á rjúpnastofninn, hvað þá að menn reyni að hamla viðgangi refsins.

Ég segi eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason: Það er ekki um það að ræða að eyða refastofninum. En við verðum að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru. Ref hefur fjölgað gríðarlega. Ég held að margir geti sagt ýmsar reynslusögur í því efni. Ég hef meira og minna alist upp í Ölfusinu, verið að minnsta kosti helming ævi minnar í sveitinni minni þar og hef gengið þar um reglulega mörgum sinnum á ári allt frá því ég man eftir mér — ætli ég byrji ekki að muna eftir mér í kringum 1970, er fædd 1965 — og þar er dýralíf og fuglalíf mikið. Ég man ekki til þess að hafa rekist þar jafnoft á ref og núna á síðustu fimm árum. Ég man reyndar bara einu sinni eftir því frá 1970 fram til ársins 2010 að hafa rekist á ref, en á síðustu tveimur árum hef ég rekist oftar á ref en nokkurn tímann áður eða þrisvar núna í sumar og tvisvar í fyrrasumar á þessu svæði. Við erum vön minknum. Ég tek undir að það ber að drepa það kvikindi tafarlaust enda setjum við fjármuni í það.

Mín spurning til hv. þingmanns um leið og ég hvet hann til dáða að fylgja þessu máli eftir er: Hvaða fjármuni erum við að tala um? Hver er tímaramminn? Það er getið um að fara eigi í ýmsar rannsóknir og fleira, en hver er tímaramminn varðandi endanlega stefnumörkun? Hvað (Forseti hringir.) mun slík stefnumörkun kosta?