141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:27]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Það má vel reikna með því að fari fram sem horfir sé ekki ósennilegt að stofnstærðin verði komin í 16–18 þús. dýr innan fimm til tíu ára. Þá hefur stofnstærðin fimmtán- til átjánfaldast á 35 árum. Það sjá allir hvaða afleiðingar það hefur í för með sér.

Umhverfisráðherra hefur verið mjög einbeitt í málefnum refsins. Eins og ég rakti í framsögu minni lagði hún til á fyrsta ári sínu sem umhverfisráðherra að fjárveitingum yrði hætt til refaveiða, en hins vegar hélt hún áfram fjárveitingum til minkaveiða.

Bent var á að virðisaukaskatturinn sem sveitarfélög og refaveiðimenn greiddu af þessu fjárframlagi og síðan framlagi sveitarfélaga væri að öllum líkindum hærra en fjárframlag ríkissjóðs. Á þeim tíma ákvað fjárlaganefnd, ég átti þá sæti í fjárlaganefnd, að veita fjármuni aftur inn og gerði þá tillögu milli umræðna. Um leið var þeim tilmælum beint til umhverfisráðherra að móta framtíðarstefnu í málaflokknum og leggja hana fram fyrir næstu fjárlög. Ári seinna tók hæstv. umhverfisráðherra hins vegar refaveiðarnar aftur út. Þá hafði hún greinilega unnið heimavinnuna betur því ekki var lengur meirihlutastuðningur við það í fjárlaganefnd að setja fjármagnið inn aftur.

Síðan hefur hæstv. umhverfisráðherra sagt í þingræðum og nú síðast í fyrirspurnatíma í þarsíðustu viku að ekki væri sannað hver áhrifin væru af fjölgun refs, það lægi ekki fyrir að fuglalíf væri að dragast saman vegna fjölgunar refs eða að vanhöld af fjalli eða dýrbitið fé væri (Forseti hringir.) að aukast. Mér hefur því fundist skorta verulega á skilning hjá hæstv. umhverfisráðherra á þessu máli, (Gripið fram í.) en ég hef fundið fyrir miklum stuðningi eiginlega á öllum öðrum stöðum.