141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:34]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var ágætt hjá hv. þingmanni að minnast á Melrakkasetrið í Súðavík. Þar er verið að byggja upp bæði þekkingu og verkefni á þessu sviði. Ég tel einboðið að þessu setri verði einmitt falin aukin rannsóknar- og eftirlitsverkefni hvað varðar refastofninn í landinu, útbreiðslu hans og vöxt og viðgang, en líka í sambandi við þær aðgerðir sem gripið er til til þess að takmarka fjölda og útbreiðslu refsins í landinu.

Refur hefur verið veiddur undanfarin ár, áratugi og aldir þannig að það hefur verið hægt að halda honum í ákveðnum fjölda miðað við stöðu lífríkisins annars. Það er enginn að tala um að fækka svo ref að stofninum geti stafað varanleg hætta af, alls ekki. Refurinn er einn af mikilvægum dýrum í lífríki Íslands og við ætlum okkur að standa vörð um hann sem slíkan.

Hins vegar tek ég undir með hv. þingmanni í þessari tillögu um að farið verði yfir skipan refaveiða, eins og hv. þingmaður orðar það. Ég tel að það þurfi að fylgjast vel með stofnstærð og útbreiðslu og grípa til viðeigandi aðgerða til að takmarka útbreiðslu og fjölda refsins og að líka þurfi að grípa til aðgerða til að ekki verði tjón af ref (Forseti hringir.) á tilteknum svæðum og honum verði haldið þar í eðlilegu jafnvægi við annað lífríki.