141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:36]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni þegar hann segir að enginn sé að tala um að útrýma ref. Refurinn er einn af frumbyggjum landsins. Við eigum að bera virðingu fyrir honum sem slíkum. Það er hins vegar mjög mikið atriði að stofnstærðinni sé haldið innan ákveðinna marka sem gætu legið, eins og ég sagði í máli mínu áðan, á bilinu 4–5 þús. dýr. Í dag er áætlað að stofnstærðin sé um 10–13 þús. dýr. Það munar því töluverðu.

Þegar hv. þingmaður kemur inn á starfsemi Melrakkasetursins og að fela því ákveðnar rannsóknir vil ég leggja áherslu á það sem kemur einmitt fram í 3. lið þingsályktunartillögunnar, að rannsóknir við stofnstærð og annað því um líkt verði á hendi vísindamanna sem gætu hugsanlega verið frá Melrakkasetrinu en veiðistjórnunin, þ.e. skipulagning, stjórnun og leiðbeiningarþjónusta við veiðimenn, verði hins vegar í höndum reyndra veiðimanna. Það skiptir grundvallarmáli í þessu að þarna sé skilið á milli þannig að rannsóknirnar séu á hendi eins aðila en að veiðistjórnun og skipulagi, þ.e. hvernig við nálgumst veiðarnar og annað því um líkt, komi fagmenn á því sviði, reyndir veiðimenn sem hafa þekkingu á þeim málum.

Því miður eru uppi sjónarmið í samfélaginu um að alfriða eigi refi, að það eigi ekki að skjóta refi. Þess vegna er svo mikið atriði að skilja þarna á milli þannig að vísindamenn sem skoða þessi mál taki ekki ákvörðun um það hvort við ætlum (Forseti hringir.) að friða ref eða ekki. Þessi þingsályktunartillaga gerir ekki ráð fyrir því að friða refi, heldur að halda stofnstærðinni innan eðlilegra marka.