141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum að þessu máli svo að engum blandist hugur um afstöðu mína til þess. Ég ætla að byrja þar sem þessari umræðu lauk rétt áður en ég gekk í ræðustólinn, á vangaveltum um stofnstærð refsins og skylda hluti.

Mjög athyglisvert viðtal við þann góða vísindamann Ester Rut Unnsteinsdóttur, líffræðing og forstöðumann Melrakkasetursins í Súðavík, var í útvarpinu 15. október í fyrra þar sem hún greindi frá því að íslenski refastofninn hefði fjór- eða fimmfaldast að stærð á undanförnum fjórum áratugum. Hennar niðurstaða var sú að refum hefði fjölgað úr tæplega 2 þúsund á áttunda áratug síðustu aldar í 8–10 þúsund. Nú er kannski rétt að fara í frekara stofnmat á stærð refsins, en þessar tölur eru nægilegar fyrir mig þegar fyrir liggur að refastofninn hafi fjór- eða fimmfaldast á fjórum áratugum. Það sjá allir í hendi sér hvílíkt inngrip þetta er í lífríki okkar, ekki síst í ljósi þeirra talna sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason reiddi hérna fram um hversu mikið refurinn þarf að éta til að lifa af. Við sjáum auðvitað að þegar slíkt gerist er það á vissan hátt sprenging í lífríkinu, þegar ein tegund fjór- eða fimmfaldast að stærð á þremur til fjórum áratugum. Það þarf ekkert frekari vitnanna við.

Þetta er ekki öllum ljóst því að umhverfisráðuneytið var nefnilega spurt um þetta í Morgunblaðinu 16. júní á þessu ári, vegna þess að blaðið hafði birt af því fréttir hvernig þróunin hefði verið og vitnaði meðal annars til margra veiðimanna og bænda sem sögðu frá því hversu stofnstærð refsins hefði aukist mikið. Blaðið sneri sér þá til umhverfisráðuneytisins, sem hefur náttúrlega með þennan málaflokk að gera, og spurðist fregna af þessu máli. Svar ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins um þetta var mjög afdráttarlaust, með leyfi forseta:

„Umhverfisráðuneytinu er ekki kunnugt um rannsóknir sem styðja þá skoðun að ref hafi fjölgað mikið á landinu.“

Þetta útskýrir fyrir okkur afstöðu umhverfisráðuneytisins til þess sem við höfum praktíserað hér í áratugi, að styðja við það í fjárlögum Alþingis að halda refastofninum í skefjum með því að styðja við sveitarfélög að standa fyrir veiðum á ref og mink.

Það sjónarmið sem hv. þingmenn hafa aðeins gert að umtalsefni, að refurinn er hér frumbyggi, hefur verið lagt til grundvallar. Menn hafa sagt þetta einhvern veginn svona: Refurinn kom hingað á undan Ingólfi Arnarsyni og hann hefur þess vegna meiri rétt en mannskepnan. Þess vegna verða hagsmunir mannsins að víkja fyrir hagsmunum frumbyggjans sem kom hingað á undan Ingólfi Arnarsyni. Þess vegna hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að það eigi ekki að stunda veiðar á ref með stuðningi ríkisins. Ég þekki þetta sjónarmið mjög vel.

Ég ætla að rifja aðeins upp gamla sögu. Á sínum tíma, þegar gamla Vestfjarðakjördæmið var til, hafði ég forgöngu um og var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um að hefja veiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum. Meðflutningsmenn að þeirri tillögu með mér voru allir þingmenn kjördæmisins á þeim tíma. Þetta mál var aðeins rætt í þinginu. Það fór síðan til umsagnar og umsagnirnar skiptust algjörlega í tvennt. Heimamenn voru mjög ánægðir með þessa tillögu en stór hluti fræðasamfélagsins á höfuðborgarsvæðinu var mjög óánægður með hana. Sérstaklega er mér minnisstætt að ég hafði skrifað inn í greinargerð með þingsályktunartillögunni mjög svo bókmenntalega setningu sem ég var dálítið stoltur af og vitnaði til þess sem fólk sem kunnugt var á Hornströndum, þar sem ég þekki býsna vel til sjálfur, hafði sagt við mig um að þetta hefði haft mikil áhrif á fuglalífið og ég orðaði á þá leið að söngur mófuglanna hefði nú hljóðnað. Þótti mér þetta bæði falleg setning og bókmenntaleg með afbrigðum. Þetta ráku vísindamennirnir okkar mjög hnýfla sína í og sögðu að þetta lýsti fávisku þessarar tillögu því að það hefði aldrei farið fram nein rannsókn á söng mófuglanna áður en veiðibannið hófst og þess vegna gætum við ekki með vísindalegum rökum sagt að ástæðan fyrir því að söngur mófuglanna hefði hljóðnað væri sú að veiðibann hefði verið sett á í friðlandinu Hornströndum.

Hvers vegna lagði ég þessa tillögu fram? Ástæðan er í raun og veru bakgrunnur hennar. Staðan sem er uppi núna, sérstaklega eftir að hæstv. umhverfisráðherra beitti sér fyrir því að hætta ríkisstuðningi við refaveiðar, er sú að þessi mál eru sums staðar í ólestri, tiltekin sveitarfélög reyna að sinna þessu eins vel og þau mögulega geta en nágrannasveitarfélög þeirra kannski minna af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekkert að fjölyrða um en refurinn þekkir nefnilega ekki landamæri sveitarfélaga og fer á milli þeirra. Þegar dregur úr veiði í einu sveitarfélagi gerist það sama og gerðist á Hornströndum, þá yfirgefa yrðlingarnir óðul sín og færa sig um set og þaðan verður síðan stöðugur straumur, eins og menn hafa upplifað í innanverðu Ísafjarðardjúpi og á norðanverðum Ströndum, Árneshreppi svo að dæmi sé tekið. Menn upplifa náttúrlega þennan ágang refsins sem er auðvitað orðinn mikill vargur í véum.

Ég ætla aðeins að vekja athygli á því hversu mikið hér getur verið í húfi fyrir einstök sveitarfélög sem eru nauðbeygð til þess að standa undir kostnaði við veiðar á ref og mink. Ég ætla að vitna í sveitarfélagið Skorradalshrepp. Oddviti þess góða sveitarfélags, Davíð Pétursson á Grund, upplýsti mig um tölur um kostnað þess sveitarfélags við vinnslu bæði á mink og ref. Kostnaðurinn fyrir þetta litla sveitarfélag er rúmlega 1,5 millj. kr. Það svarar til kostnaðar upp á 27.500 kr. eða þar um bil á hvern íbúa. Ég reiknaði kostnaðinn að gamni mínu úr sæti mínu hér áðan ef Reykjavíkurborg ætti í hlut, ef Reykvíkingar þyrftu að reiða fram 27.500 kr. á íbúa við verkefni af þessu tagi sem er í eðli sínu samfélagslegt. Kostnaðurinn fyrir Reykjavíkurborg væri á bilinu 3,2–3,3 milljarðar kr. Svo gera menn stundum grín að því þegar lítil eða fámenn landmikil sveitarfélög kvarta við þessar aðstæður og kveinka sér undan því að þurfa að taka á sig allan þennan mikla kostnað. Hér er nefnilega um grafalvarlegt mál að ræða fyrir tiltekin sveitarfélög í landinu.

Ég fékk einu sinni svarað fyrirspurn um þetta mál sem varpar ljósi á þennan kostnað hjá einstökum sveitarfélögum. Það væri svo sem fróðlegt að rifja það upp.

Þegar maður sá í hvað stefndi, að stöðugt var verið að draga úr fjárveitingum til refaveiða og síðan voru þær lagðar af, þá lagði ég fram frumvarp á sínum tíma sem kvað á um það að sveitarfélög sem stæðu fyrir veiðum á ref og mink fengju endurgreiddan virðisaukaskatt sem þau annars borga af þessu til ríkisins. Það teldi ég lítið skref í þessa átt. Það mundi strax lækka kostnaðinn hjá þessum sveitarfélögum um 20% og væri auðvitað skref í áttina og mundi að minnsta kosti skapa ákveðinn grunn til að byggja á fyrir sveitarfélögin og væri því að mínu mati til talsverðra bóta.

Staðan sem komin er upp núna er þessi: Í stað þess að ríkisvaldið komi fram með einhver fjárframlög til þessa málaflokks eins og hefur tíðkast áratugum saman þá er staðan orðin sú að þetta er í raun og veru orðinn hreinn tekjustofn án útgjalda fyrir ríkið. Það er sérstakur skattur sem rennur inn í ríkissjóð frá sveitarfélögunum í formi þessa virðisaukaskatts án þess að nokkur þjónusta af hálfu ríkisins gagnvart þessu komi þar á móti. Ég rifja þetta upp og legg áherslu á það vegna þess að þetta getur skipt máli þótt það reddi ekki öllu fyrir sveitarfélögin.

Svo er eitt í viðbót. Í bylnum mikla fyrir norðan í haust drapst, eins og við vitum, fjöldi fjár og refurinn fór þá heldur betur á kreik. Það sem er alvarlegast í því, sem veiðimenn og aðrir sem eru kunnugir náttúrunni hafa bent mér á, er að með þessu kemst refurinn á bragðið. Refir sem hafa ekki verið fram undir þetta dýrbítar verða það. Það sem mun gerast í vetur er að refurinn verður í hreinni veislu. Hin náttúrulegu afföll sem við þekkjum í hörðum íslenskum vetri verða í miklu minni mæli. Þess má því vænta að refastofninn muni eflast eða að minnsta kosti stækka á þessum slóðum. Síðan hitt sem menn hafa ætlað, að þetta breytir kannski eðli þessara dýra ef rétt er og þau verða aðgangsharðari gagnvart búfé bænda en þau hafa verið áður.

Þetta mál er grafalvarlegt. Þetta er mikið hagsmunamál margra fámennra en landstórra sveitarfélaga. Þetta er verkefni sem við eigum að taka alvarlega og mér finnst ekki hægt, eins og mér hefur stundum fundist örla á í þessari umræðu, að menn afgreiði það af léttúð, (Forseti hringir.) geri lítið úr því. Það skiptir miklu máli (Forseti hringir.) að sú stefna sem hæstv. umhverfisráðherra tók upp, að hætta stuðningi við refaveiðar, er alröng.