141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég sá þetta svar frá umhverfisráðuneytinu um að því væri ekki kunnugt um rannsóknir sem styddu þá skoðun að ref hefði fjölgað mikið á landinu voru mín fyrstu viðbrögð að trúa varla mínum eigin augum.

Þessi frétt var hins vegar í Morgunblaðinu þannig að ég efaðist ekki um að það væri satt sem stóð í henni. Þetta hefur heldur ekki verið borið til baka enda kom fram að blaðið hefði haft samband við ráðuneytið og fengið formlegt svar um mat þess.

Það kemur mér satt að segja mjög mikið á óvart að þessar rannsóknir Páls Hersteinssonar þekkist ekki í ráðuneytinu eða þær upplýsingar sem ég hlustaði á í útvarpinu í viðtali við þann góða vísindamann Ester Rut Unnsteinsdóttur. Ég ætla svo sem ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta en þetta kannski skýrir það að ráðuneytið hefur ekki talið ástæðu til þess að ríkið verði fé í það að vinna refinn.

Mér finnst hins vegar stundum örla á því að menn taki þetta mál ekki mjög alvarlega. Á stórum landsvæðum í fjölmennustu sveitarfélögunum, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu, er þetta ekki talið vera mjög mikið vandamál. Menn átta sig ekki á því að þetta hefur áhrif á rekstur lítilla, þ.e. fámennra en landmikilla sveitarfélaga og veldur því að þau eiga í erfiðleikum með að sinna annarri þjónustu sem þau gjarnan vildu sinna af því að þau eru nauðbeygð að reyna að halda refnum í skefjum á sínu svæði, þau verða að standa fyrir þessu, því annars hefur það svo alvarlegar afleiðingar, búsifjar, í för með sér.

Það er verið að stilla þessum sveitarfélögum upp við vegg með mjög ósanngjörnum hætti. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að reyna að efla skilning á málinu. Ég vil líka minna á það sem ég sagði áðan að ef eitt sveitarfélag vanrækir (Forseti hringir.) þetta kemur það niður á því næsta þótt síðar verði.