141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dreg ekki í efa ummæli hæstv. umhverfisráðherra frá því í sumar því að það nákvæmlega sama kom fram í umræðum á þingi fyrir skömmu þar sem hæstv. umhverfisráðherra var spurð út í þessi mál. Hæstv. ráðherra sagði að engar rannsóknir styddu þetta og ef menn ætluðu að fara af stað og fækka ref þyrfti fyrst að fara af stað í rannsóknarvinnu. Ég tek því undir með hv. þingmanni.

Hv. þingmaður kom inn á að hér ríkti kannski ákveðið skilningsleysi og það kann vel að vera rétt að menn taki þetta mál ekki nægilega alvarlega vegna þess að þeir þekkja ekki aðstæður og hvaða áhrif fjölgun refsins hefur.

Um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í þessari umræðu, hann er meðflutningsmaður að þessari tillögu, vil ég minna aftur á að ef við gefum okkur að stofnstærðin sé 12 þús. refir og refurinn borði 200 kg af fóðri á ári þá eru það, samkvæmt eldri rannsóknum um hvað refurinn er að éta, 750 þús. rjúpur, 108 þús. gæsir, 380 þús. svartfuglar, 2 milljónir annarra fugla en ofantalið er — og munum þá myndina af 23 þúfutittlingsungum sem refurinn var að bera í grenið — 3 milljónir eggja og 15 þús. lömb. Og ef við gefum okkur að refurinn éti helmingi minna eða 100 kg og deilum síðan í þessar tölur hér að ofan með tveimur, þá eru það engu að síður meira en 350 þús. rjúpur sem refurinn tekur.

Það liggur algjörlega ljóst fyrir að fjölgun refs hefur gríðarleg áhrif á íslenska náttúru og það er fyrst og fremst í þágu umhverfisins að tekið verði á þessum vanda. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans góðu ræðu og stuðning við þetta mál. Ég vil taka fram í lokin að ég hef stutt tillögur (Forseti hringir.) hv. þingmanns sem snúa að endurgreiðslum á virðisaukaskatti og að hann verði afnuminn af refaveiðum.