141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður var að segja varpar ljósi á það hversu veiðistjórnun til dæmis varðandi fuglaveiðar er í raun fáfengileg. Menn hafa haft uppi mikil áform um að reyna að draga úr veiðum á svartfugli, menn hafa fylgt ströngum takmörkunum varðandi rjúpnaveiðar en við sjáum auðvitað hversu fáfengilegt þetta allt saman verður þegar við gerum okkur grein fyrir þeim tölum sem hv. þingmaður lagði hér fram um áhrifin af inngripi refsins í þessa fuglastofna.

Ég hitti í gærkvöldi einn af nágrönnum hv. þingmanns, bónda í Dölunum, sem sagði mér frá því að nágrannar hans hefðu sumir lent í mjög miklum afföllum í haust með sitt fé. Það var ekki vegna þess að þeir hefðu orðið fyrir veðurskaða eins og bændurnir á Norðurlandi hafa orðið fyrir. Þeir röktu þetta beinlínis til þess að ref hefði fjölgað svo mikið á þessum slóðum að það hefði valdið afföllum hjá einstaka bændum. Þessi bóndi sagði mér líka að fyrir ekki löngu síðan var það mjög oft þannig þegar hann var að slá að hann þurfti að stökkva út úr dráttarvélinni til að reka mófuglana úr slægjunni. Nú er því öllu lokið, þetta gerist ekki lengur vegna þess að mófuglunum hefur fækkað svo mikið. Söngur mófuglanna hefur nefnilega víðar hljóðnað en á Hornströndum.

Ég held að það sé mikill misskilningur í gangi þegar menn segjast vera miklir náttúruverndarsinnar og vilji þess vegna ekki veiða ref en við hinir sem teljum að nauðsynlegt sé að veiða refinn séum hins vegar einhverjir umhverfissóðar. Það er nefnilega ákveðin sjálfbærni í því fólgin að veiða úr lífríkinu eins og gert hefur verið varðandi refinn. Ef stofninum verður ekki haldið í skefjum og ef hið opinbera kemur ekki að því verkefni og hjálpar til við það verðum við bara undir. Þá verður fuglalífið fábrotnara og það mun hafa margs konar afleiðingar og ekki síst fyrir þessi fámennu, landstóru sveitarfélög sem borga sem svarar 3,3 milljörðum kr. (Forseti hringir.) í þetta verkefni ef upphæðin væri yfirfærð yfir á fjárhagsbúskap Reykjavíkurborgar.