141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

átökin á Gaza.

[15:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mér er fullkunnugt um að slík ákvörðun verður ekki tekin án aðkomu og án þess að hæstv. utanríkisráðherra ræði það við utanríkismálanefnd, enda spurði ég ekki að því. Ég spurði um afstöðu hæstv. utanríkisráðherra til þess hvort slíta eigi stjórnmálasambandi við Ísrael, hvort hæstv. utanríkisráðherra muni beita sér fyrir því. Það var spurning sem ég óska svars við.

Við þekkjum þessa sögu. Stofnað var til stjórnmálasambands við Ísrael árið 1948. Við þekkjum aðkomu Íslands að þeirri stofnun. Ekkert annað ríki sem við berum okkur saman við er, að því er ég best veit, í þessum hugleiðingum. Ég skoðaði listann yfir þau ríki sem við höfum stjórnmálasamband við og það eru eftir minni athugun hátt í 180 ríki, sum góð, önnur slæm. Við höfum stjórnmálasamband við ríki eins og Norður-Kóreu, Sýrland, Íran. Ef við ætlum að fara út í slíkar æfingar, (Forseti hringir.) að ætla að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael vegna átaka tveggja aðila sem báðir hafa nokkuð til síns máls, (Forseti hringir.) erum við á hálum ís og þurfum að fara vandlega yfir þann lista og taka þá ef til vill einhverja fleiri af honum.