141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

átökin á Gaza.

[15:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér finnst þetta mál sé af þeirri stærðargráðu og það sé svo alvarlegt að við eigum ekki að reyna að nota það til að reyna að ná pólitískum hælkrók hvert á annað í umræðum á Alþingi. Mér finnst miklu frekar að við eigum að reyna að sameinast um að fordæma þessi voðaverk og um að reyna að beita afli Íslands og rödd á alþjóðavettvangi til að stilla til friðar, til að hafa áhrif. Það er það sem við eigum að gera. Við eigum ekki að taka pólitíska glímu um þetta mál.

Að því er varðar spurningar hv. þingmanns þá veit hv. þingmaður að ég hef gert skýra grein fyrir afstöðu minni gagnvart utanríkismálanefnd. Nefndin fól mér á sínum tíma að skoða ákveðnar mögulegar leiðir. Ég gerði það. Ég ræddi við yfirmenn Arababandalagsins, við fjölmarga utanríkisráðherra, þar á meðal Arabaríkja. Ég komst að niðurstöðu sem ég lagði fyrir nefndina á sínum tíma. Því var ekki mótmælt þá. Ég tel hins vegar að þetta mál sé þess eðlis að það hljóti að ræðast í utanríkismálanefnd. Víst er að ég mun taka þetta mál upp á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun.