141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

slit stjórnmálasambands við Ísrael.

[15:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka þessi svör. Málið er að við búum í allt öðrum heimi í dag en við gerðum árið 2010. Í millitíðinni var hið svokallaða arabíska vor og ef maður les fréttaskýringar um ástandið núna er alveg ljóst að stjórn Egyptalands mun bregðast við og hefur þegar brugðist við á annan hátt en fyrrverandi einræðisherra.

Nú kemur fram á RÚV að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, hefur óskað eftir umræðu um málið á Alþingi og hann segir að tilefnið sé að endurskoða stjórnmálasamband við Ísrael og hvetja aðrar þjóðir að gera hið sama. Ég og fleiri þingmenn munum leggja fram þingsályktunartillögu, vonandi í dag, við erum alla vega byrjuð að vinna að því máli, þar sem við munum hvetja til þess að stjórnmálasambandi við Ísrael verði hætt og að viðskiptaþvinganir verði settar gagnvart Ísraelsstjórn.