141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

skýrsla um stöðu lögreglunnar.

[15:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða við hæstv. ráðherra um skýrslu sem innanríkisráðuneytið hefur látið gera um stöðu lögreglunnar og hefur eftir því sem ég best veit verið kynnt í ríkisstjórn. Í henni kemur fram að ljóst er að mati ráðuneytis að brýnt sé að huga að grunnþáttum í starfi lögreglunnar, þ.e. fjárveitingum og fjölda lögreglumanna. Forgangsatriði sé að fjölga almennum lögreglumönnum sem annast útköll og almennt lögreglueftirlit með nauðsynlegum búnaði því tengdu.

Það kemur einnig fram að grunnbúnaður lögreglu til að takast á við sérstakar lögregluaðgerðir, t.d. vegna vopnamála, hryðjuverka og annarra stórfelldra ofbeldisglæpa, sé mjög takmarkaður og búnaðurinn sem til er þarfnist að mestu leyti endurnýjunar og viðbúnaðargeta sé óviðunandi varðandi fyrstu viðbrögð vegna öryggis ríkisins.

Einnig kemur fram og fjallað er um hið viðamikla starf sem lögregluskólinn sinnir og því framhaldsnámi sem er boðið upp á, en þar segir að árleg síþjálfun lögreglumanna sé lítil sem engin hvað varðar verklega þjálfun á sviði lögregluaðgerða og viðbúnaðar.

Þetta er ítarleg skýrsla, virðulegi forseti, og er til dæmis komið inn á mannfæð og fjárskort lögreglu sem hefur leitt til þess að lögreglan er hætt að sinna fjölmörgum verkefnum og að möguleikar á að skipuleggja sérstök átaksverkefni og þjálfun séu nánast engir.

Í samantekt Lögreglustjórafélags Íslands kemur fram að fjárskortur lögreglunnar hefur leitt til fækkunar lögreglumanna víða í lögregluliði landsins og það hafi haft mikil áhrif á störf og mátt lögreglunnar í landinu. Það má segja að þetta komi inn á fjölmarga þætti eins og öryggi lögreglumanna, dregið hafi úr þjálfun, eins og komið hefur fram, og að eignakaup og endurnýjun búnaðar séu í algeru lágmarki.

Að mínu mati er um mjög svarta skýrslu að ræða, skýrslu sem dregur það fram hversu veik lögreglan er orðin, sem sinnir grunnöryggisþörf okkar sem borgara í landinu. Við þessu verður að bregðast og ábyrgð Alþingis er gríðarlega mikil í þessu máli. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hyggist kynna þessa skýrslu sérstaklega fyrir þinginu vegna þess að ábyrgðin á því að (Forseti hringir.) sjá til þess að á fjárlögum næsta árs verði brugðist við þessum vanda sem hér er upplýstur er þingsins.