141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

skýrsla um stöðu lögreglunnar.

[15:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þessi skýrsla er ekki neitt leyniplagg enda fór það svo þegar hv. þingmaður óskaði eftir að fá eintak í hendur þá fékk hann það, núna í morgun.

Hann talar um svarta skýrslu. Við höfum stundum í þessum sal talað um svart ástand í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum. Það hefur verið rifjað upp hvernig komið var fyrir okkur árið 2008 við efnahagshrunið þegar halli á fjárlögum nam 216 milljörðum kr. Árið eftir, 2009, nam hallinn 139 milljörðum kr. Við höfum verið að vinna bug á þessum vanda með því að hækka skatta og draga úr útgjöldum hins opinbera, finna heppilega og sanngjarna blöndu hvað það áhrærir. Þetta hefur leitt til þess að við höfum skorið niður útgjöld ríkisins þannig að hjá allflestum stofnunum sem undir ríkið heyra nemur skerðingin á milli fimmtungi og fjórðungi af heildarupphæðum, niðurskurðurinn nemur því. Auðvitað kemur það niður á allri þeirri starfsemi sem í hlut á, hvort sem það er menntakerfi, heilbrigðiskerfi, löggæsla eða annað. Þetta höfum við rætt opinskátt og eigum að sjálfsögðu að gera og horfast í augu við það sem er að gerast í starfsemi hins opinbera. Þetta er umgjörðin, þetta eru ástæðurnar.

Nú vonumst við til þess að sólin fari hækkandi á lofti á hinum efnahagslega himni og að við getum bætt í. Við erum við það að ná tökum á fjárlögunum og viljum að sjálfsögðu stíga framfaraskref, ekki síður innan löggæslunnar en annars staðar, enda lítum við á löggæsluna sem veigamikinn þátt í innviðum samfélags okkar.