141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

fræðsla í fjármálalæsi.

[15:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svörin. Ég undirstrika að út kom skýrsla árið 2009 á vegum þáverandi viðskiptaráðherra þar sem fram kom að börn og unglingar fá takmarkaða fræðslu um fjármál í skólum. Í skýrslu þeirrar nefndar voru settar fram margar tillögur sem lúta að menntakerfinu og ég heyri á hæstv. menntamálaráðherra að þeim hefur verið hleypt af stað.

Ég vil að lokum spyrja menntamálaráðherra hvort einhverjar mælingar hafi farið fram á árangri af þeirri tilraun sem gerð hefur verið, hvort einhver mælanlegur árangur sé því að það kom fram í skýrslunni að menntamálaráðuneytið ætti að mæla reglulega hvort árangur væri af tillögunum í skýrslunni.