141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:43]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Í 25. gr. þingskapa segir, með leyfi forseta:

„Fjárlaganefnd á rétt á að fá þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana sem óska eftir framlögum úr ríkissjóði.“

Við í stjórnarandstöðunni í fjárlaganefnd höfum allan þann tíma sem við höfum verið að vinna með fjáraukalagagerðina óskað upplýsinga til að við værum fær um að sinna því lögbundna hlutverki sem okkur er ætlað í eftirliti með framkvæmd fjárlaga ársins. Í þrígang hefur þessu verið neitað og loks beittum við ákvæðum 51. gr. þingskapa sem kveður á um að fjórðungur nefndarmanna geti krafist þess að fá þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar. Ekki hefur verið við því brugðist. Það er með öllu óskiljanlegt og gjörsamlega óþolandi að þingmönnum sé ekki gert kleift að rækja starf sitt á þeim grunni sem þingsköp bjóða.

Ég geri alvarlegar athugasemdir við þetta verklag, frú forseti, og krefst þess að hér verði ráðin bót á. Með engum hætti er hægt að standa að því að samþykkja þá tillögu sem liggur fyrir (Forseti hringir.) frá stjórnarmeirihlutanum undir þeim skilmálum sem stjórnarandstöðunni er ætlað að vinna að framgangi mála.