141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[16:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er komin upp til að taka undir hvert orð sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði áðan. Að auki vil ég benda á að komið hefur upp mikil andstaða gegn því að gildistökuákvæðum skuli vera frestað fram á mitt ár 2013. Starfsmenn þessara stofnana vilja taka skellinn strax úr því að búið er að koma því alla leið inn í 3. umr. og frumvarpið er að verða að lögum.

Virðulegi forseti. Mér finnst ekki hafa verið tekið tillit til þeirra starfsmanna sem vinna í stofnununum sem um ræðir og því hafna ég. Málið er komið í ansi skrýtinn feril því að ekki er hægt að sameina ríkisstofnanir með ofbeldi.