141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[16:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Þetta er mál sem ég hef verið gagnrýninn á alveg frá fyrstu tíð. Ég tel að ekki ætti að fara þá leið sem farin er við sameiningu stofnana í samgöngumálum, sem frumvörpin hér gera ráð fyrir. Hún byggir ekki á þeim tillögum sem upphaflega voru lagðar til af hálfu nefndarinnar sem undirbjó málið. Ég hef mælt fyrir því að menn skoðuðu meðal annars leiðir sem nefndin lagði til, að koma á laggirnar stofnun hafs og stranda. Ég hefði frekar talið það í takt við þau sjónarmið sem nú eru uppi um breytingar á norðurslóðum, um auknar siglingar í kringum landið og fleira í þeim dúr. Þau sjónarmið hafa ekki átt upp á pallborðið, a.m.k. ekki í mínum þingflokki.

Ég er hins vegar sammála því viðhorfi sem meðal annars hefur komið frá hæstv. innanríkisráðherra, að sú óvissa sem starfsemin og starfsmenn hafa mátt búa við í þessu máli sé líka mjög bagaleg. Af þeim sökum kýs ég að styðja þá breytingartillögu sem nefndin (Forseti hringir.) flytur en sitja hjá við málið í heild.