141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[16:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hin langa ræða sem hv. þm. Mörður Árnason sagði að ég hefði flutt um málið stóð nákvæmlega í tvær mínútur. Þetta var eitt andsvar.

Að öðru leyti vil ég segja að það er auðvitað til marks um heldur vonda samvisku þegar hv. þingmenn í meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar neita mönnum um að kalla fyrir sig gesti til þess að ræða málin og fá upplýsingar svo hægt sé að taka sem vandaðasta ákvörðun um málið. Þær upplýsingar lutu meðal annars að reynslu annarra þjóða af því að hafa gert þessar breytingar. Það var auðvitað nauðsynlegt fyrir okkur að hafa þær upplýsingar uppi á borðum en því var sem sagt hafnað.

Það er ekki búið að sýna fram á neinn raunverulegan fjárhagslegan sparnað af breytingunum. Þótt aðdragandinn hafi verið langur er ýmsum spurningum algjörlega ósvarað og þess vegna er verið að fara af stað með mál sem ekki er búið að ljúka, m.a. vegna þrákelkni meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.