141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

267. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. velferðarráðherra um þá mikilvægu löggjöf sem við samþykktum á þingi um málefni fatlaðra sem fól það í sér að við færðum málaflokkinn yfir til sveitarfélaganna. Það var samþykkt í desember 2010 og þjónusta við fatlað fólk var formlega flutt yfir til sveitarfélaganna 1. janúar 2011. Við höfum nú fengið dálitla reynslu og skýrari sýn á það og var afar gott að við vorum velflest hér inni sammála því að taka það skref. Það þarf náttúrlega að fylgja því eftir. Til bráðabirgða var sett inn þingsályktunartillaga í breytingarnar sem sneri að framkvæmdaáætlun varðandi málefni fatlaðra. Það var forsenda fyrir því að traust ríkti á milli aðila við endurskoðun sem gera á á lögunum árið 2014 og varðar auk þess endanlegt uppgjör við sveitarfélögin.

Framkvæmdaáætlunin var mjög mikilvægt skref og lykill að því að við gætum byggt upp traust á milli aðila þegar málaflokkurinn yrði fluttur til sveitarfélaganna. Mikilvægt var að skilgreint væri hver verkefnin væru og á hvers ábyrgð þau væru. Það er allt vel skilgreint í framkvæmdaáætluninni.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort fjármögnun framkvæmdaáætlunarinnar sé tryggð bæði fyrir árin 2013 og 2014. Ég heyri að misjafnlega er að framkvæmdaáætluninni staðið og lýsi yfir áhyggjum mínum hvað það varðar. Ég efast ekki um að hæstv. ráðherra taki undir þær áhyggjur. Ég hef heyrt af verkefnum sem fengið hafa framlög á þessu ári en það er engin trygging fyrir því að hægt verði að halda áfram og þar með er engin trygging fyrir því að við fylgjum eftir framkvæmdaáætluninni sem við samþykktum á þingi. Hægt er að nefna þar sem dæmi verkefni sendiherrasamnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem upphaflega er kominn frá Landssamtökunum Þroskahjálp. Það var alveg skýrt að ábyrgðaraðili verkefnisins er velferðarráðuneytið samkvæmt þingsályktunartillögunni og kostnaðurinn er 3 millj. kr. á ári í þrjú ár, 2012, 2013 og 2014. Það verkefni er til að mynda ekki skýrt. Ég get nefnt fleiri dæmi en það sem skiptir máli er að hæstv. velferðarráðherra er ötull fylgismaður þessa máls og hefur verið mjög drjúgur í hagsmunagæslu fyrir fatlaða. Hvernig sér hæstv. ráðherra fram á að við getum fylgt framkvæmdaáætluninni eftir? Hvernig getum við fylgt henni eftir með fjármögnun? Telur hann það vera raunhæft eða þurfum við að fara að nýju í endurskoðun á framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðra?